Monday, February 28, 2011

Lélegasta golfmót sögunnar

 


Golf er yndisleg íþrótt. Hin fullkomna íþrótt að mínu mati. Það er eitthvað svo fáránleg áskorun að koma lítilli kúlu í litla holu í mörg hundruð metra fjarlægð í 3-5 höggum (ef þú stefnir á parið). Mun flóknari íþrótt en t.d. boltaíþróttirnar þar sem oft er hægt að komast áfram á líkamlegum yfirburðum og almennri baráttu. Það er helsti (af mörgum) gallinn við golfið hjá mér, þegar illa gengur þá er ekki gott að setja hausinn undir sig og ætla bara að berjast og taka vel á því. Ég missi því oft hausinn gjörsamlega, þvílíkur pirringur sem þessi íþrótt getur valdið. Um leið og ég held að ég sé kominn með þetta þá fer allt til andskotans.

Mig langar að segja frá golfmóti sem við félagarnir að vestan héldum á Víkurvelli í Stykkishólmi í sumar. Mikið var blásið og talað um mótið á Facebook fyrir mót en það var sameiginleg ákvörðun okkar að ræða það ekki eftir mót. Ég vann meira að segja mótið (já það var svona lélegt) en ég vildi ekki tala um það. Við félagarnir erum allir álíka lélegir og því von á öllu en við komum samt sjálfum okkur á óvart með arfaslakri frammistöðu. Sérstaklega þar sem við æfðum grimmt fyrir mótið, einn okkar gekk svo langt að ráða Úlfar Jónsson margfaldan Íslandsmeistara sem kennara. Sá átti að sjálfsögðu mörg gloríu högg þennan dag og þá heyrðist oft "helvítið hann Úlfar!!" Eins og Úlfar hafi í raun eyðilagt fallega sveiflu.

Ég sá um mótið og ákvað að hafa þetta veglegt. Nokkur verðlaun, nándarverðlaun, lengsta upphafshögg, fyrir hvert par, hvern fugl (líklegt) og að sjálfsögðu sigurvegarann. Það var enginn forgjöf að sjálfsögðu, það er enginn alvöru sigurvegari sem vinnur með forgjöf. Ég fullyrði að þetta var slakasta fjögurra manna mót í sögu golfsins og þá meina ég um allan heim, ekki aðeins á Íslandi. Ef ekki, þá væri ég til í að hlæja að þeim fjórmenningum sem voru slakari en við félagarnir þennan dag.

Hérna eru nokkrar staðreyndir um þetta mót.

Mótið vannst á 125 höggum, par vallarins er 70, það gera 55 högg yfir pari. Þess vegna sagðist ég bara hafa unnið mótið þegar fólk spurði. Fór ekkert nánar út í það.

Það var tekið 9. högg á teig á þessu móti, sá maður var ekki með lélegasta skorið á holunni.

Versti níu holu hringurinn var 89 högg, parið á 9 holur er 35. Það eru 54 höggum yfir pari á níu holur, toppiði það. Þess skal getið að þessi maður tapaði ekki mótinu.

Við komum með málband til að mæla nándarverðlaun, þurftum ekki að taka það upp því aðeins eitt högg af átta var inná flöt. Það var u.þ.b. 30 metra frá holu. Sjálfkrafa nándarverðlaun.

Það var aldrei spenna um hvort einhver næði fugli , við hefðum þurft að hafa bogey verðlaun því við náðum ekki einu sinni parinu.

Ég man ekki töluna nákvæmlega en heildarskor hópsins var á milli 550 og 600 högg á 18 holum. Fjórir spilarar.

Hæsta skor á einni holu var held ég 18 högg, en var reyndar par 5 hola svo það er ekki svo slæmt.

Einn okkar skilaði skori uppá 70 högg á seinni hringnum. Þykir ekki gott en var samt bæting uppá heil 19 högg frá fyrri hring.


Þetta var því ansi skrautlegt mót. Ég hef oft klikkað í körfuboltaleik á ögurstundu, klikkað skotum, léleg vörn eða misst af frákasti. Það að klúðra á ögurstundu er oft kallað að "choka". En það að choka er ekki bara að klikka á ákveðnu atriði, það er hugarástand og tilfinning sem ég kynntist á þessu móti. Aldrei á mínum körfuboltaferli hef ég verið jafn stressaður og þegar forystan mín var að hverfa á síðustu holunum. Ég kveið fyrir hverju höggi, vildi bara ljúka því af. Ég gat varla haldið á kylfunni og átti meira að segja nokkur vindhögg, eitthvað sem ég hafði ekki gert allt sumarið. Ég toppaði svo chokið með því að dúndra í bekk á kvennateignum á einni holunni. Það var 5. högg af teig. Þessar síðustu holur voru svo lélegar hjá mér að ég held að handalaus maður hefði unnið mig.

Að lokum vill ég taka fram að það var vont veður þennan dag, ef einhver skyldi vera að spá í hvað klikkaði.

4 comments:

  1. hehehehehhehehehehehehheheeh anskotinn að missa af þessu móti!!!!
    Kv Laugi

    ReplyDelete
  2. Veðrið fór alveg með þetta hjá ykkur. En það góða við þetta er að menn eru að bæta sig svakalega þessa stundina og ég held að áhorfendamet verði slegin í sumar. Vantar þig ekki caddy?

    Kv. Gulli Smára

    ReplyDelete
  3. Þú ert hér með ráðinn Gulli. Gott væri ef þú færir í að komast að því hvar mótið verður haldið og svo kynna þér völlinn. Má ekkert klikka.

    ReplyDelete
  4. Það mun ekkert klikka! Vinnum í einhverju öðru en 60°...

    Kv. Gulli

    ReplyDelete