Friday, March 25, 2011

Undanúrslit

Ég var nærri lagi með að spá um fyrstu umferðina, ef við sleppum því að minnast á KR-Njarðvík seríuna. Haukar stóðu sig vel, ég viðurkenni að ég hafði enga trú á þeim, en með klókindum innan vallar sem utan náðu þeir að standa vel í Snæfell og voru nálægt því að koma með svakalegt upset. ÍR köfnuðu svo aldeilis á pressunni í Keflavík. Furðulegustu ummæli vetrarins komu frá þjálfara ÍR, „Við fengum marga möguleika til þess að stinga þá af í leiknum en náðum ekki að nýta okkur það og því fór sem fór. Þetta er að vissu leyti frábær endir á ótrúlegum vetri,". Furðulegt, ég get ómögulega séð hvað er svona frábært við þennan endi. Né heldur að þetta sé ótrúlegur vetur, þeir vissulega bættu sig þegar leið á veturinn en veturinn getur varla talist ótrúlegur.
Stjarnan tók Grindavík í síðasta leik Nick Bradford. Leiðinlegt að ferillinn hafi endað svona hjá Nick, einhver skemmtilegasti karakter sem ég hef spilað á móti. Hann komst oft inní hausinn á mínum liðum eins og öðrum. Þreifst í stóru leikjunum og gerði alla betri í kringum sig. Toppmaður. En svona verða þá undanúrslitin.


Keflavík- KR
Þetta verður rosarimma. Bæði lið með góða heimavelli þá sérstaklega ef að Miðjan og Trommusveitin hafa ekki gefið upp öndina. Það eru nokkur áhugaverð "Matchup" í þessu. Pavel vs Hörður verður áhugavert. Hörður er meiri íþróttamaður en Pavel er mun betri í að stjórna leik og sjá allt sem er að gerast, meiri leikstjórnandi og öflugri leikmaður í það heila. Hann hefur ekki átt sína bestu leiki gegn Kef, hef ekki séð þá leiki en líklega á Hörður sinn þátt í því, hann er góður varnarmaður. Keflavík á séns þó Hörður eigi ekki sína bestu seríu, t.d. ef Marcus Walker ákveður að kippa honum úr leiknum. KR á hinsvegar ekki séns ef Pavel á ekki góða seríu. Hann ber einfaldlega ábyrgð á það miklu í þessu liði. T.d. skora stóru mennirnir þeirra mjög sjaldan ef að hann hefur ekki matreitt það nánast frá grunni.
Ég hef ekki góða tilfinningu fyrir kananum í Keflavík, en hef séð of lítið til að dæma hann endanlega. Virðist ekki vera á sama leveli og margir Keflavíkur kanar í gegnum tíðina en þeir hafa oft verið með kana í algjörum sérflokki. Aftur á móti er Marcus Walker að spila frábærlega fyrir KR. Hann gæti gert Herði mjög erfitt fyrir, spurning hvernig Hörður höndlar það.

Af stóru mönnunum tel ég Kef hafa vinninginn, Siggi Þorsteins var að spila mjög vel gegn ÍR og virðist lýsið vera að leka af honum og hann í góðu formi. Hann hefur það að hann getur skorað á póstinum, stóru mennirnir hjá KR skora flest sín stig eftir gegnumbrot bakvarðanna. Því meiri ógn þar hjá Keflavík. Ciric hjá Kef er víst öflugur leikmaður. Hann var reyndar samningslaus í einhvern tíma áður en hann kom hingað og kannski er formið ekki gott. Kef s.s. með tvo öfluga sóknarmenn í teignum, KR strákarnir eru hinsvegar góðir varnarmenn og sóknarfrákastarar. Ef þeir standa sína plikt varnarlega þá tel ég að KR vinni seríuna því mig grunar að Walker muni kippa einhverjum bakverði hjá Kef út úr leiknum.
Ég er langt frá því að vera viss en ég ætla að setja aurinn á KR, þeir virkuðu meira sannfærandi í fyrstu umferðinni. 3-1.

Snæfell-Stjarnan

Virkilega skemmtilegt einvígi. Hérna eru líka góð matchup. Shouse og Burton stendur uppúr. Ólíkir stílar hjá þessum mönnum. Justin er meira fyrir að opna varnir andstæðinganna og verður algjört lykilatriði fyrir Snæfell að halda honum sem mest frá því að komast inní miðja vörnina. Þar tekur hann oft góðar ákvarðanir. Justin er líka mikill keppnismaður og stemmningsgaur. Ef hann á góða seríu gæti Stjarnan hæglega unnið. Sean er meira fyrir að bomba fyrir utan enda er hann fáránlega góð skytta. Prósentan hjá honum er fáránlega há ef mið er tekið af hversu erfið skot hann tekur. Ógnin af honum er það mikil að sérstaklega eftir pick and roll verða lið að rótera. Það opnar fyrir aðra menn og þar sem Snæfellsliðið hreyfir boltann mjög vel þá eru andstæðingarnir oft komnir í "hrærivélina" eftir að hann losar boltann. Lenda í því að elta og Snæfell þefar uppi opna skotið. Þeirra einvígi skiptir miklu. Líklegast er þó að báðir standi sig vel.

Það er fullt af góðum sóknarmönnum í báðum liðum. Bæði lið eru með góða sóknarmenn inní teig, Lindmets hjá Stjörnunni, Amoroso og Nonni hjá Snæfell. Fullt af skyttum í báðum liðum. Liðin eru því alls ekki ósvipað uppsett. Sóknarleikurinn virðist betri hjá Snæfell, meira flæði og fleiri að snerta boltann. Stjarnan oft með lítið flæði. Þeir hafa hinsvegar unnið Snæfell nýlega og gerðu kannski eitthvað til að koma þeim útúr sínum leik, þeir hafa jú spilað fína vörn í vetur.
Það er vonlaust fyrir að mig að vera hlutlaus en það er tvennt sem ég held að muni valda því að Snæfell vinni. Ef við tökum frá bestu leikmennina í hvorum liðum þá er það nokkuð jafnt, leikmennirnir þar fyrir aftan, t.d. á bekknum finnst mér hinsvegar vera sterkari hjá Snæfell, örlítið fleiri vopn. Hitt atriðið er að Snæfell er ekki búið að ná takmarki sínu. Það hefur verið yfirlýst stefna hjá Stjörnunni að komast í undanúrslit, sem er furðulegt miðað við mannskapinn hjá þeim en var samt áfangi sem klúbburinn þurfti að ná. Spurning hvernig þeir gíra sig upp í næsta skref.

Mín spá kemur gríðarlega á óvart, en ég held að Snæfell hafi þetta á fegurðinni, 3-2 í magnaðri rimmu.

Sunday, March 6, 2011

Skrautlegt ár í Hollandi

Þetta tímabil hér í Svíþjóð er annað tímabilið mitt í Evrópuboltanum. Hér er vel staðið að öllu, þjálfarinn mjög fær og hefur kennt mér margt. Undirbúningur fyrir leiki er mjög góður og heilt yfir fagmannlega staðið að flestum hlutum.
Fyrra tímabilið mitt erlendis (ath erlendis, ekki í útlöndum) var í Hollandi tímabilið 2005-2006. Ég hef nokkuð oft verið spurður að því hvernig það gekk og hvernig var. Best að segja frá þessu tímabili, því það var ansi skrautlegt. Fólk heldur oft að um leið og einhver segist vera í atvinnumennsku þá sé hann í toppmálum að gera eitthvað spennandi. Þetta tímabil sannaði fyrir mér að grasið er ekki alltaf grænna hinu megin. Lífið sjálft í Hollandi var reyndar skemmtilegt og gaman að kynnast nýjum hlutum, körfuboltahliðin var hins vegar í rugli.

Æfingarnar voru bara grín, þjálfarinn var í annari vinnu og mætti iðulega of seint, stundum mætti hann alls ekki. Við æfðum í íþróttahúsum sem voru fáránlega léleg og varla upphituð sum hver. Eitt þeirra var svo lítið að karfan hékk á múruðum veggnum og því algjör óþarfi að hafa línu til að merkja hvar þú værir kominn útaf vellinum, veggurinn var bara útaf. Það var því stórhættulegt að sækja upp endalínuna, minnsta snerting þýddi að þú rispaðir þig duglega. Menn lærðu á þetta og byrjuðu því bara að leyfa mönnum að fara endalínuna, því var auðvelt ef þú vildir líta vel út á æfingu að sækja þangað, þar var opin leið því enginn vildi meiða þig.
Dæmi um æfingu hjá okkur var hin sígilda "átta" hana þekkja allir körfuboltamenn, hún er sáraeinföld og hundleiðinleg. Snýst einfaldlega um að þrír menn senda á milli sín og hlaupa aftur fyrir manninn sem þeir senda á. Þetta gátum við gert í allt að klukkutíma því við áttum að gera 150 sendingar með sniðskotum inná milli án þess að boltinn snerti gólfið. Það mistókst oft og því byrjað uppá nýtt. Einu sinni fór svo til öll æfingin í þetta, djöfull var þetta leiðinlegt.

Ótrúleg staðreynd hjá atvinnumannaliði er að við vorum ekki með nein kerfi fyrstu vikur deildakeppninnar, og ekkert skipulag. Leikstjórnandinn okkar tók það að sér eftir smá tíma að búa til eitt kerfi til að hlaupa. Við báðum um kerfi á endanum og það var lítið mál að redda því sagði þjálfarinn, hann mætti galvaskur nokkrum dögum seinna með kerfi þar sem ég átti að senda blindandi sendingu aftur fyrir bak á einhvern sem ætti að skora. "Lenny, u can pass the ball, u will surprise them with this pass". Ég gat ekki annað en brosað.

Einhver kaninn bað um að fá að scouta (sem þýðir einfaldlega að skoða leikmenn og kerfi) hitt liðið, það gæti hjálpað okkur. Því var svarað með að sýna gamlan leik frá fyrra tímabili, liðið sem sýnt var hafði bæði skipt um flesta sína leikmenn og þjálfara. Við hefðum því allt eins getað horft á White Men Cant Jump, það hefði hjálpað meira. Þjálfarinn tók þetta til sín og ákvað að halda fund með leikmönnum, þar sem fara átti yfir leik liðsins og næstu andstæðinga. Það endaði hinsvegar bara í góðu partýi þar sem einhverjir af þeim leikmönnum sem þekktu þjálfarann tóku með sér bjór á videofundinn! Þið sjáið væntanlega að þetta skilaði litlu.
Svona gekk veturinn með mörgum ótrúlegum uppákomum, sumar þeirra eru þess eðlis að ekki er við hæfi að segja frá þeim. Við vorum sektaðir af þeirri einföldu ástæðu að við vorum lélegir, það var ekki í samningum heldur fannst forsetanum það bara. Liðið borðaði svo yfirleitt á McDonalds fyrir og eftir leik, svona til að tryggja að örugglega ekki neitt væri í lagi.

Við enduðum að mig minnir í neðsta sæti. Gátum ekki neitt miðað við mannskap. Þetta kenndi mér margt, sumt af því tók svolítinn tíma að læra en þetta var a.m.k. ágætis sýnikennsla hvernig á ekki að gera hlutina. Ég hefði að sjálfsögðu getað gert margt mun betur sjálfur en einhvern veginn var þetta tímabil algjör tímasóun. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar heyrt neitt í líkingu við þetta lið. Öll íþróttalið sem eyða peningum í starfið vilja gera vel. Ég lít því á þetta ár sem einstakt dæmi. Veit ekki hvort ég á að vera þakklátur fyrir það.

En ég fékk a.m.k. góðar sögur til að segja félögunum, held ég sleppi að segja börnunum frá þessu liði.