Thursday, April 21, 2011

Finals

Þá er komið að lokaúrslitunum hérna í Svíþjóð. Við sópuðum Södertalje frekar auðveldlega. Þeir eru ekkert spes blessaðir. Voru líka með nokkrar pirrandi týpur og því gott að sópa þeim út.

Norrköping er andstæðingurinn í úrslitunum, þeir eru góðir og með mikla breidd. Það kemur helst til vegna þess að þeir eru með þrefalt meira budget en næsta lið í deildinni. Þá eiga lið að vera samkeppnishæf, andskotinn hafi það. Þeir notuðu þetta budget mest til að spila í bæði Baltic League og Eurocup, eru því búnir að spila fáránlegan fjölda leikja.
Ég er ánægður með að fá þá, flott lið með góða umgjörð. Höllin hjá þeim og öll aðstaða er mjög töff. Virðist vera komin fín stemmning í áhorfendurna hjá þeim líka en þeir voru fullrólegir í vetur. Vonandi verða læti og pakkað hjá þeim eins og verður pottþétt hjá okkur.

Við höfum fengið góða pásu á meðan þeir eru að koma úr erfiðri seríu við LF Basket sem kláraðist í kvöld (Miðvd). Yfirleitt er ég hrifnari af því að koma strax úr töff seríu í þá næstu en í þessu tilfelli held ég að pásan hafi gert okkur, a.m.k. mér gott. Búnir að spila 50 leiki í vetur með löngum ferðalög og menn eitthvað farnir að lýjast, ég er ekki vanur því. Vanur að fá reglulega tveggja vikna pásu heima á Íslandi, ekki að það sé eitthvað sem ég sakna en þetta voru vissulega viðbrigði.

Þetta er best of 7 sería, ég hef aldrei spilað í þannig áður. Byrjað á föstudaginn langa og svo spilað annan hvern dag held ég út seríuna. Það er langt ferðalag til Norrköping og alltaf gist eina nótt á hóteli. Verður strembið en svona viljum við samt hafa þetta. Líf og fjör.

Tuesday, April 5, 2011

Það er nauðsynlegt að skjóta þá

Nýverið hafa verið fluttar fréttir um misnotkun á ungum dreng, eitthvað sem er svo óhugnalegt að ég mun ábyggilega sleppa því að lesa smáatriði í því máli. Ég ætla ekki að tala um það mál heldur almennt um þessi mál, samt er varla að ég þori því. Ég læt samt vaða.

Það er ekkert sem reitir mig eins mikið til reiði og misnotkun á börnum, sem betur fer deili ég þeirri skoðun með miklum meirihluta mannkyns. Þá er sama hvernig ofbeldi er verið að beita, andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu. Þetta er viðbjóður sem samfélagið tekur ekki nærri nógu hart á að mínu mati. Andstyggðin á þessum mönnum eykst svo til muna þegar maður eignast börn sjálfur. Vangaveltur eins og "hvað ef einhver myndi..." og allt það fara af stað í hausnum á mörgum við svona fréttir. Ég fer ekki nánar út í það, enda ljótar hugsanir sem engum er hollt að hugsa of mikið um.

Þessir menn fara í fangelsi í örfá ár, ennþá helsjúkir með sína ógeðslegu hvatir og eru í raun bara tifandi tímasprengja sem springur þegar þeir komast aftur út í samfélagið. Þeim er haldið uppi í ágætis fangelsi (sé miðað við önnur lönd), fá að borða reglulega og ýmsa þjónustu sem brotamenn eiga rétt á. Koma svo aftur út í samfélagið engum til gleði, væntanlega ekki einu sinni sínum nánustu þó best sé að fullyrða ekki um það. Mannréttindi eins og þau sem ég taldi upp eru að sjálfsögðu eitthvað sem allir vilja að séu virt. Ég get hinsvegar ekki varist þeirri hugsun að þessir menn eiga ekki einu sinni grunn mannréttindi skilið í mínum huga. Þeir eiga ekki skilið að einhver "hotshot" lögfræðingur noti alla sína þekkingu og klókindi til að minnka refsingu þeirra. Þeir eiga ekki skilið að vera færður matur. Þeir eiga ekki skilið neitt í mínum huga. Ef þú veldur barni svo miklum sársauka og langvarandi vanlíðan þá hefur þú einfaldlega fyrirgert þínum rétti til eins eða neins. Í raun myndi ég ekki sjá á eftir þessum mönnum ef þeim yrði hent í sjóinn. Ég myndi ekki mótmæla fyrir þeirra hönd.

Ég veit ekki hvernig menn í árdaga tóku á mönnum sem gerðu hluti sem misbuðu þeim jafn mikið og svona gjörðir misbjóða okkur. Mig grunar þó sterklega að ferlið hafi ekki verið eins langt og mannúðlegt og það er í dag. Þeir hafa ábyggilega bundið enda á það mjög fljótt og örugglega. Ekki það að ég vilji fara aftur um þúsund ár í siðum og venjum en ég held að sú leið sem þeir fóru (væntanlega, ég þekki það ekki nákvæmlega) sé sanngjarnari.

Mennirnir eru að sjálfsögðu alltaf að brjóta á hvorum öðrum, á ýmsa vegu og oft á viðurstyggilegan hátt. Þeir hafa alltaf gert og munu því miður alltaf gera það. Ég ætla ekki að reyna að fegra aðra glæpi en engir þeirra komast nálægt barnaofbeldi í mínum huga. Það er eitthvað svo hreint við börn að það þarf að gera allt til að vernda þau fyrir hrottum af þessu tagi. Þau geta ekki varið sig, í sumum tilfellum geta þau ekki einu sinni sagt frá því sem gerðist. Ef einhver vill lemja mig eða meiða á einhvern hátt þá á ég a.m.k. möguleika á að verja mig eða að reyna að koma mér úr þeim aðstæðum sem ég er í. Barnið á ekki möguleika.

Ég vill því mun harðari refsingar fyrir þessa menn, sama hvort við skerum undan þeim eða hendum í sjóinn. Þeirra velferð er mun minna virði en vellíðan og sakleysi barna. Við munum seint breyta því að einhverjir menn finna þessar hvatir innra með sér. Gott væri að menn sem finna fyrir þessum hvötum viti að ef þeir láta undan þeim þá verður þeim refsað harkalega. Kannski myndu einhver börn sleppa.

Mér misbýður þetta eins og þið sjáið, ég veit að ég færi ekki sérstök rök fyrir öllu en mér er nokk sama. Þetta er bara það sem mér finnst. Ég ætti ekki að þurfa að taka það fram að allir eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð og að hafa af saklausum mönnum æruna er með því verra sem lagt verður á nokkurn mann. En þeir sem eru sekir um að meiða börn eiga ekkert gott skilið.

Ekki einu sinni súrefni.

Sunday, April 3, 2011

Playoffs

Við unnum deildarkeppnina hérna í Svíþjóð og það örugglega, vorum búnir að tryggja það þegar þrjár umferðir voru eftir. Þá hefðu margir haldið að við ættum þægilega fyrstu umferð í vændum. Það er nú meira helvítið. Við erum í svaka rimmu við liðið sem lenti í 8. sæti, Jamtland, staðan er 2-2. Þeir byrjuðu hræðilega á tímabilinu, gátu ekki neitt. Eftir að hafa skipt um þjálfara sem hefur fengið þá til að spila af meiri hörku en áður eru þeir allt annað lið. Stór þáttur er svo líka að þeir fengu mjög góðan kana á miðju tímabili, en hann er að valda okkur miklum vandræðum.

Þeir hafa greinilega undirbúið sig mjög vel, eru búnir að kortleggja okkur og okkar kerfi. Þeir hafa hingað til í seríunni einnig náð að láta leikina vera spilaða eins og þeir vilja, þ.e. frekar hægt. Við höfum skorað flest allra liða í vetur og viljum hafa leikinn hraðan, enda með frekar lágvaxið lið miðað við önnur lið í deildinni. Þeir hafa náð að hægja á leiknum með því að brjóta mikið snemma í sóknum og stoppa leikinn. Í sókninni hlaupa þeir svo sín kerfi alltaf alveg til enda, rúlla í gegnum þau þar til lítið er eftir af klukkunni og vonast eftir að við missum einbeitningu einhvern tímann í sókninni. Ef það klikkar þá hafa þeir geta hent boltanum á Darius Hargrove sem er mjög lunkinn að skora einn á einn og bjarga þeim.
Við höfum einnig kortlagt þá mjög vel og gengur ágætlega að stoppa þá en erum í basli í sókninni. Fáum ekki þær auðveldu körfur sem við höfum fengið í allan vetur, uppúr kerfum eða hraðaupphlaupum. Við vorum kannski farnir að taka þeim sem sjálfsögðum hlut.

Oddaleikurinn er á morgun, þó við hefðum viljað klára þetta í síðasta leik er hægt að horfa á jákvæðum augum á að þurfa að spila 5. leikinn. Þetta eru leikirnir sem allir muna eftir þegar tímabilið klárast og jafnvel ferillinn. Það man enginn eftir þýðingarlitlum leikjum í nóvember þegar lítið er undir. Þetta er því tíminn. Ef það gengur ekki, sem er alls ekki á stefnuskránni þá erum við ekki nógu góðir og eigum titilinn ekki skilið.
Annað sem er jákvætt er að ef (þegar!) við vinnum þá erum við vel undirbúnir fyrir næstu rimmu. Ég held að það sé gott fyrir lið að fara í gegnum erfiðar seríur, heldur öllum við efnið.

Gameplanið á morgun er einfalt, erum reyndar með fullt af "X og O" tilbúið sem er mjög mikilvægt en aðalmálið verður að keyra upp hraðann, spila án alls ótta og berja frá okkur. Það ætti að skila sigri í hús. Einfalt, ekki satt? Þá er best að gera það bara.

Fyrir þá sárafáu sem eru í Svíþjóð og lesa þetta þá er leikurinn sýndur á TV 10 kl 19. Gæti svo verið að það sé eitthvað stream á netinu, veit ekki um það. Ef einhver hefur nægan áhuga er svo alltaf hægt að biðja góðan vin í Svíþjóð um að setja tölvuna fyrir framan sjónvarpið og horfa á leikinn í gegnum Skype. Hef prófað það og það er ágætt.

Friday, March 25, 2011

Undanúrslit

Ég var nærri lagi með að spá um fyrstu umferðina, ef við sleppum því að minnast á KR-Njarðvík seríuna. Haukar stóðu sig vel, ég viðurkenni að ég hafði enga trú á þeim, en með klókindum innan vallar sem utan náðu þeir að standa vel í Snæfell og voru nálægt því að koma með svakalegt upset. ÍR köfnuðu svo aldeilis á pressunni í Keflavík. Furðulegustu ummæli vetrarins komu frá þjálfara ÍR, „Við fengum marga möguleika til þess að stinga þá af í leiknum en náðum ekki að nýta okkur það og því fór sem fór. Þetta er að vissu leyti frábær endir á ótrúlegum vetri,". Furðulegt, ég get ómögulega séð hvað er svona frábært við þennan endi. Né heldur að þetta sé ótrúlegur vetur, þeir vissulega bættu sig þegar leið á veturinn en veturinn getur varla talist ótrúlegur.
Stjarnan tók Grindavík í síðasta leik Nick Bradford. Leiðinlegt að ferillinn hafi endað svona hjá Nick, einhver skemmtilegasti karakter sem ég hef spilað á móti. Hann komst oft inní hausinn á mínum liðum eins og öðrum. Þreifst í stóru leikjunum og gerði alla betri í kringum sig. Toppmaður. En svona verða þá undanúrslitin.


Keflavík- KR
Þetta verður rosarimma. Bæði lið með góða heimavelli þá sérstaklega ef að Miðjan og Trommusveitin hafa ekki gefið upp öndina. Það eru nokkur áhugaverð "Matchup" í þessu. Pavel vs Hörður verður áhugavert. Hörður er meiri íþróttamaður en Pavel er mun betri í að stjórna leik og sjá allt sem er að gerast, meiri leikstjórnandi og öflugri leikmaður í það heila. Hann hefur ekki átt sína bestu leiki gegn Kef, hef ekki séð þá leiki en líklega á Hörður sinn þátt í því, hann er góður varnarmaður. Keflavík á séns þó Hörður eigi ekki sína bestu seríu, t.d. ef Marcus Walker ákveður að kippa honum úr leiknum. KR á hinsvegar ekki séns ef Pavel á ekki góða seríu. Hann ber einfaldlega ábyrgð á það miklu í þessu liði. T.d. skora stóru mennirnir þeirra mjög sjaldan ef að hann hefur ekki matreitt það nánast frá grunni.
Ég hef ekki góða tilfinningu fyrir kananum í Keflavík, en hef séð of lítið til að dæma hann endanlega. Virðist ekki vera á sama leveli og margir Keflavíkur kanar í gegnum tíðina en þeir hafa oft verið með kana í algjörum sérflokki. Aftur á móti er Marcus Walker að spila frábærlega fyrir KR. Hann gæti gert Herði mjög erfitt fyrir, spurning hvernig Hörður höndlar það.

Af stóru mönnunum tel ég Kef hafa vinninginn, Siggi Þorsteins var að spila mjög vel gegn ÍR og virðist lýsið vera að leka af honum og hann í góðu formi. Hann hefur það að hann getur skorað á póstinum, stóru mennirnir hjá KR skora flest sín stig eftir gegnumbrot bakvarðanna. Því meiri ógn þar hjá Keflavík. Ciric hjá Kef er víst öflugur leikmaður. Hann var reyndar samningslaus í einhvern tíma áður en hann kom hingað og kannski er formið ekki gott. Kef s.s. með tvo öfluga sóknarmenn í teignum, KR strákarnir eru hinsvegar góðir varnarmenn og sóknarfrákastarar. Ef þeir standa sína plikt varnarlega þá tel ég að KR vinni seríuna því mig grunar að Walker muni kippa einhverjum bakverði hjá Kef út úr leiknum.
Ég er langt frá því að vera viss en ég ætla að setja aurinn á KR, þeir virkuðu meira sannfærandi í fyrstu umferðinni. 3-1.

Snæfell-Stjarnan

Virkilega skemmtilegt einvígi. Hérna eru líka góð matchup. Shouse og Burton stendur uppúr. Ólíkir stílar hjá þessum mönnum. Justin er meira fyrir að opna varnir andstæðinganna og verður algjört lykilatriði fyrir Snæfell að halda honum sem mest frá því að komast inní miðja vörnina. Þar tekur hann oft góðar ákvarðanir. Justin er líka mikill keppnismaður og stemmningsgaur. Ef hann á góða seríu gæti Stjarnan hæglega unnið. Sean er meira fyrir að bomba fyrir utan enda er hann fáránlega góð skytta. Prósentan hjá honum er fáránlega há ef mið er tekið af hversu erfið skot hann tekur. Ógnin af honum er það mikil að sérstaklega eftir pick and roll verða lið að rótera. Það opnar fyrir aðra menn og þar sem Snæfellsliðið hreyfir boltann mjög vel þá eru andstæðingarnir oft komnir í "hrærivélina" eftir að hann losar boltann. Lenda í því að elta og Snæfell þefar uppi opna skotið. Þeirra einvígi skiptir miklu. Líklegast er þó að báðir standi sig vel.

Það er fullt af góðum sóknarmönnum í báðum liðum. Bæði lið eru með góða sóknarmenn inní teig, Lindmets hjá Stjörnunni, Amoroso og Nonni hjá Snæfell. Fullt af skyttum í báðum liðum. Liðin eru því alls ekki ósvipað uppsett. Sóknarleikurinn virðist betri hjá Snæfell, meira flæði og fleiri að snerta boltann. Stjarnan oft með lítið flæði. Þeir hafa hinsvegar unnið Snæfell nýlega og gerðu kannski eitthvað til að koma þeim útúr sínum leik, þeir hafa jú spilað fína vörn í vetur.
Það er vonlaust fyrir að mig að vera hlutlaus en það er tvennt sem ég held að muni valda því að Snæfell vinni. Ef við tökum frá bestu leikmennina í hvorum liðum þá er það nokkuð jafnt, leikmennirnir þar fyrir aftan, t.d. á bekknum finnst mér hinsvegar vera sterkari hjá Snæfell, örlítið fleiri vopn. Hitt atriðið er að Snæfell er ekki búið að ná takmarki sínu. Það hefur verið yfirlýst stefna hjá Stjörnunni að komast í undanúrslit, sem er furðulegt miðað við mannskapinn hjá þeim en var samt áfangi sem klúbburinn þurfti að ná. Spurning hvernig þeir gíra sig upp í næsta skref.

Mín spá kemur gríðarlega á óvart, en ég held að Snæfell hafi þetta á fegurðinni, 3-2 í magnaðri rimmu.

Sunday, March 6, 2011

Skrautlegt ár í Hollandi

Þetta tímabil hér í Svíþjóð er annað tímabilið mitt í Evrópuboltanum. Hér er vel staðið að öllu, þjálfarinn mjög fær og hefur kennt mér margt. Undirbúningur fyrir leiki er mjög góður og heilt yfir fagmannlega staðið að flestum hlutum.
Fyrra tímabilið mitt erlendis (ath erlendis, ekki í útlöndum) var í Hollandi tímabilið 2005-2006. Ég hef nokkuð oft verið spurður að því hvernig það gekk og hvernig var. Best að segja frá þessu tímabili, því það var ansi skrautlegt. Fólk heldur oft að um leið og einhver segist vera í atvinnumennsku þá sé hann í toppmálum að gera eitthvað spennandi. Þetta tímabil sannaði fyrir mér að grasið er ekki alltaf grænna hinu megin. Lífið sjálft í Hollandi var reyndar skemmtilegt og gaman að kynnast nýjum hlutum, körfuboltahliðin var hins vegar í rugli.

Æfingarnar voru bara grín, þjálfarinn var í annari vinnu og mætti iðulega of seint, stundum mætti hann alls ekki. Við æfðum í íþróttahúsum sem voru fáránlega léleg og varla upphituð sum hver. Eitt þeirra var svo lítið að karfan hékk á múruðum veggnum og því algjör óþarfi að hafa línu til að merkja hvar þú værir kominn útaf vellinum, veggurinn var bara útaf. Það var því stórhættulegt að sækja upp endalínuna, minnsta snerting þýddi að þú rispaðir þig duglega. Menn lærðu á þetta og byrjuðu því bara að leyfa mönnum að fara endalínuna, því var auðvelt ef þú vildir líta vel út á æfingu að sækja þangað, þar var opin leið því enginn vildi meiða þig.
Dæmi um æfingu hjá okkur var hin sígilda "átta" hana þekkja allir körfuboltamenn, hún er sáraeinföld og hundleiðinleg. Snýst einfaldlega um að þrír menn senda á milli sín og hlaupa aftur fyrir manninn sem þeir senda á. Þetta gátum við gert í allt að klukkutíma því við áttum að gera 150 sendingar með sniðskotum inná milli án þess að boltinn snerti gólfið. Það mistókst oft og því byrjað uppá nýtt. Einu sinni fór svo til öll æfingin í þetta, djöfull var þetta leiðinlegt.

Ótrúleg staðreynd hjá atvinnumannaliði er að við vorum ekki með nein kerfi fyrstu vikur deildakeppninnar, og ekkert skipulag. Leikstjórnandinn okkar tók það að sér eftir smá tíma að búa til eitt kerfi til að hlaupa. Við báðum um kerfi á endanum og það var lítið mál að redda því sagði þjálfarinn, hann mætti galvaskur nokkrum dögum seinna með kerfi þar sem ég átti að senda blindandi sendingu aftur fyrir bak á einhvern sem ætti að skora. "Lenny, u can pass the ball, u will surprise them with this pass". Ég gat ekki annað en brosað.

Einhver kaninn bað um að fá að scouta (sem þýðir einfaldlega að skoða leikmenn og kerfi) hitt liðið, það gæti hjálpað okkur. Því var svarað með að sýna gamlan leik frá fyrra tímabili, liðið sem sýnt var hafði bæði skipt um flesta sína leikmenn og þjálfara. Við hefðum því allt eins getað horft á White Men Cant Jump, það hefði hjálpað meira. Þjálfarinn tók þetta til sín og ákvað að halda fund með leikmönnum, þar sem fara átti yfir leik liðsins og næstu andstæðinga. Það endaði hinsvegar bara í góðu partýi þar sem einhverjir af þeim leikmönnum sem þekktu þjálfarann tóku með sér bjór á videofundinn! Þið sjáið væntanlega að þetta skilaði litlu.
Svona gekk veturinn með mörgum ótrúlegum uppákomum, sumar þeirra eru þess eðlis að ekki er við hæfi að segja frá þeim. Við vorum sektaðir af þeirri einföldu ástæðu að við vorum lélegir, það var ekki í samningum heldur fannst forsetanum það bara. Liðið borðaði svo yfirleitt á McDonalds fyrir og eftir leik, svona til að tryggja að örugglega ekki neitt væri í lagi.

Við enduðum að mig minnir í neðsta sæti. Gátum ekki neitt miðað við mannskap. Þetta kenndi mér margt, sumt af því tók svolítinn tíma að læra en þetta var a.m.k. ágætis sýnikennsla hvernig á ekki að gera hlutina. Ég hefði að sjálfsögðu getað gert margt mun betur sjálfur en einhvern veginn var þetta tímabil algjör tímasóun. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar heyrt neitt í líkingu við þetta lið. Öll íþróttalið sem eyða peningum í starfið vilja gera vel. Ég lít því á þetta ár sem einstakt dæmi. Veit ekki hvort ég á að vera þakklátur fyrir það.

En ég fékk a.m.k. góðar sögur til að segja félögunum, held ég sleppi að segja börnunum frá þessu liði.

Monday, February 28, 2011

Lélegasta golfmót sögunnar

 


Golf er yndisleg íþrótt. Hin fullkomna íþrótt að mínu mati. Það er eitthvað svo fáránleg áskorun að koma lítilli kúlu í litla holu í mörg hundruð metra fjarlægð í 3-5 höggum (ef þú stefnir á parið). Mun flóknari íþrótt en t.d. boltaíþróttirnar þar sem oft er hægt að komast áfram á líkamlegum yfirburðum og almennri baráttu. Það er helsti (af mörgum) gallinn við golfið hjá mér, þegar illa gengur þá er ekki gott að setja hausinn undir sig og ætla bara að berjast og taka vel á því. Ég missi því oft hausinn gjörsamlega, þvílíkur pirringur sem þessi íþrótt getur valdið. Um leið og ég held að ég sé kominn með þetta þá fer allt til andskotans.

Mig langar að segja frá golfmóti sem við félagarnir að vestan héldum á Víkurvelli í Stykkishólmi í sumar. Mikið var blásið og talað um mótið á Facebook fyrir mót en það var sameiginleg ákvörðun okkar að ræða það ekki eftir mót. Ég vann meira að segja mótið (já það var svona lélegt) en ég vildi ekki tala um það. Við félagarnir erum allir álíka lélegir og því von á öllu en við komum samt sjálfum okkur á óvart með arfaslakri frammistöðu. Sérstaklega þar sem við æfðum grimmt fyrir mótið, einn okkar gekk svo langt að ráða Úlfar Jónsson margfaldan Íslandsmeistara sem kennara. Sá átti að sjálfsögðu mörg gloríu högg þennan dag og þá heyrðist oft "helvítið hann Úlfar!!" Eins og Úlfar hafi í raun eyðilagt fallega sveiflu.

Ég sá um mótið og ákvað að hafa þetta veglegt. Nokkur verðlaun, nándarverðlaun, lengsta upphafshögg, fyrir hvert par, hvern fugl (líklegt) og að sjálfsögðu sigurvegarann. Það var enginn forgjöf að sjálfsögðu, það er enginn alvöru sigurvegari sem vinnur með forgjöf. Ég fullyrði að þetta var slakasta fjögurra manna mót í sögu golfsins og þá meina ég um allan heim, ekki aðeins á Íslandi. Ef ekki, þá væri ég til í að hlæja að þeim fjórmenningum sem voru slakari en við félagarnir þennan dag.

Hérna eru nokkrar staðreyndir um þetta mót.

Mótið vannst á 125 höggum, par vallarins er 70, það gera 55 högg yfir pari. Þess vegna sagðist ég bara hafa unnið mótið þegar fólk spurði. Fór ekkert nánar út í það.

Það var tekið 9. högg á teig á þessu móti, sá maður var ekki með lélegasta skorið á holunni.

Versti níu holu hringurinn var 89 högg, parið á 9 holur er 35. Það eru 54 höggum yfir pari á níu holur, toppiði það. Þess skal getið að þessi maður tapaði ekki mótinu.

Við komum með málband til að mæla nándarverðlaun, þurftum ekki að taka það upp því aðeins eitt högg af átta var inná flöt. Það var u.þ.b. 30 metra frá holu. Sjálfkrafa nándarverðlaun.

Það var aldrei spenna um hvort einhver næði fugli , við hefðum þurft að hafa bogey verðlaun því við náðum ekki einu sinni parinu.

Ég man ekki töluna nákvæmlega en heildarskor hópsins var á milli 550 og 600 högg á 18 holum. Fjórir spilarar.

Hæsta skor á einni holu var held ég 18 högg, en var reyndar par 5 hola svo það er ekki svo slæmt.

Einn okkar skilaði skori uppá 70 högg á seinni hringnum. Þykir ekki gott en var samt bæting uppá heil 19 högg frá fyrri hring.


Þetta var því ansi skrautlegt mót. Ég hef oft klikkað í körfuboltaleik á ögurstundu, klikkað skotum, léleg vörn eða misst af frákasti. Það að klúðra á ögurstundu er oft kallað að "choka". En það að choka er ekki bara að klikka á ákveðnu atriði, það er hugarástand og tilfinning sem ég kynntist á þessu móti. Aldrei á mínum körfuboltaferli hef ég verið jafn stressaður og þegar forystan mín var að hverfa á síðustu holunum. Ég kveið fyrir hverju höggi, vildi bara ljúka því af. Ég gat varla haldið á kylfunni og átti meira að segja nokkur vindhögg, eitthvað sem ég hafði ekki gert allt sumarið. Ég toppaði svo chokið með því að dúndra í bekk á kvennateignum á einni holunni. Það var 5. högg af teig. Þessar síðustu holur voru svo lélegar hjá mér að ég held að handalaus maður hefði unnið mig.

Að lokum vill ég taka fram að það var vont veður þennan dag, ef einhver skyldi vera að spá í hvað klikkaði.

Tuesday, February 22, 2011

Stjörnuleikir

 



Það var stjörnuleikshelgi hérna í Svíþjóð um helgina, með svipuðu sniði og í NBA. Þriggja stiga keppni, svokallað skills challenge, troðslukeppni og svo stjörnuleikurinn sjálfur.
Það skemmtilegasta að mínu mati við stjörnuleikinn er að vera valinn, það er alltaf gaman og töluverður heiður. Ég er þakklátur fyrir það.

Ég get hinsvegar ekki sagt að ég hafi gaman af stjörnuleikjunum sjálfum. Kannski er ég bara bitur þar sem þessir leikir henta mér ákaflega illa, endalausar troðslur, þriggja stiga skot langt fyrir utan línu er ekki alveg fyrir mig. Svo er eiginlega bannað að spila vörn af krafti og berjast. Ég er því oft bara fyrir í svona leikjum. Ég reyni að hlýða þessum óskrifuðu reglum þó mig hafi stundum langað til að vera fíflið sem tekur þessu aðeins of alvarlega með því t.d. að brjóta hressilega á einum ungum kana þegar hann reynir við fimmtu troðsluna sína í leiknum.

Stjörnuleikurinn sjálfur finnst mér alltaf verstur á svona viðburðum, skotkeppnir, þrautir og troðslukeppnir eru betri þó ég sé ekkert sérlega hrifinn af því. En þar eru menn a.m.k. að keppa, sem er grundvallaratriði ef það á að vera gaman að horfa á íþróttir. Menn verða að vera að keppast um eitthvað. Geta leikmanna finnst mér engu skipta ef þeir vilja ekki vinna og taka á hinu liðinu, þess vegna heillar stjörnuleikurinn í NBA mig akkúrat ekki neitt. Þó þar séu bestu íþróttamenn heims þá verður þetta óáhugavert þegar menn eru bara að dúlla sér við að troða á milli þess sem þeir hlæja með andstæðingunum og spjalla um hvað það var nú gaman á spilavítinu í gærkvöldi.

Svona stjörnuleikir tíðkast ekki eins mikið í öðrum íþróttum, helst er að í fótbolta séu einhverskonar kveðjuleikir þar sem hrúgað er saman góðum leikmönnum. Það hljóta að vera hrikalega leiðinlegir leikir. Ekki mjög merkilegt að sóla sig í gegnum vörnina ef vörninni er alveg sama hvort þú skorir. Ég myndi ekki gráta það þó svona leikir yrðu ekki framar í körfunni en fólk virðist hafa gaman að þessu og ég virði það.

Ég held samt að ég hafi spilað minn síðasta stjörnuleik, áttaði mig á því í gær þegar ég var að reyna að fela þá staðreynd að ég var sígeispandi á bekknum að hugsa um hvað við fengjum að borða eftir leik, hvort ég fengi eitthvað kjöt eða fimmtándu pastamáltíðina í röð. Ég vissi ekki hvað staðan var í leiknum lengst af, eftir upphitun í hálfleik þá áttaði ég mig á því að við vorum í raun 15 stigum undir, ég hafði lítið fylgst með.
Þetta er því komið gott.

Tuesday, February 15, 2011

Níski Rússinn

 



Ég bölva oft verðinu á hlutum hérna í Svíþjóð. Þá aðallega eftir að ég er búinn að reikna u.þ.b. hvað þeir kosta í íslenskum krónum. Þó ég fái útborgað í sænskum krónum þá er nú planið að leggja fyrir og senda heim, því reikna ég alltaf í huganum hvað hlutir kosta í ISK.
Lengst af í vetur hefur 1 SEK verið um 17.5 ISK. Er núna í rúmum 18. Skilst að fyrir nokkrum árum í góðærinu sem við fengum að láni hafi hún verið um 9 ISK. S.s. þetta er alveg agalegt þegar ég versla en fínt þegar ég sendi heim. Reyndar er oft talað um óvenjulegt ástand í þessum málum. Það er ábyggilega rétt en nú eru komin nokkur ár þar sem þetta hefur verið svona. Ég lít því á þetta sem eðlilegt gengi þangað til þetta breytist eitthvað.

Hér eru örfá dæmi um hvað mismunandi hlutir kosta í Svíþjóð, reiknað í ISK.

Bensínlíter kostar 240 kr.
Bleyjupakki kostar 2150 kr.
Gosflaska 1/2 líter kostar 320 kr.
Kaffibolli á kaffihúsi kostar 550 kr.

Þið sjáið að þetta er fokdýrt. Íslenska krónan gerir það að verkum að ég verð mun nískari. Sem er einmitt ástæðan fyrir þessum pistli.
Þegar krónan var sem sterkust var þessu auðvitað öfugt farið. Allt sem við keyptum í útlöndum var nánast gefins. Ég a.m.k. leit svo á að ég væri að græða á öllum kaupum í USA, þótt ég þyrfti kannski ekki fimm íþróttabuxur og fjögur pör af skóm, þá var þetta bara svo andskoti ódýrt.

Meðan þetta ástand varði þá var líka allt á Íslandi rándýrt fyrir útlendinga sem reiknuðu í huganum yfir í sína mynt, eins og ég geri núna. Ég hef spilað með mönnum frá Rússlandi, Serbíu og Bandaríkjunum sem einfaldlega hættu við að borða með liðinu því það var svo dýrt. Einu sinni borgaði ég pylsu fyrir kana sem ég spilaði með, bara svo að hann borðaði eitthvað fyrir leik, hann var ekki á því að borga 5 dollara fyrir pylsu. Ég spilaði með Rússa sem setti pizzusneiðar í vasann á skítugri vinnuúlpunni eftir að hafa verið boðið í pizzuhlaðborð. Hann vissi sem var að næsta máltíð myndi kosta hann fleiri rúblur en hann kærði sig um að eyða. Ég hefði nú samt mælt með því að hann hefði fengið plastpoka utan um sneiðarnar, bragðast ábyggilega verr með öllu rykinu.

Þegar einn dollari var jafnvirði 60 ISK þá kostaði það Bandaríkjamann 40 dollara að fá sér pizzu á 2400 kr. Skiljanlegt að þeir hafi hugsað sig tvisvar um áður en þeir borguðu. Ætli þeir geti ekki fengið sér eins pizzu á 10 dollara í Bandaríkjunum.
Ekki þekki ég sögu gjaldmiðilsins í Rússlandi en væntanlega höfðu þeir svipaða ástæðu fyrir því að borga ekki. Þó ég sé ekki byrjaður að stinga mat í vasann þá skil ég þessa menn núna. Nú er ég níski Rússinn. Það er ekki gaman.

Saturday, February 12, 2011

Leikskilningur

 


Margir muna eftir viðtali við Ólaf Stefánsson snemma árs 2008, þar viðraði hann þá hugmynd að fá mig í handboltalandsliðið, þó minni alvara hafi verið í þeirri hugmynd en margir halda. Viðtalið vakti mikla athygli, kannski skiljanlega en það versta við allt fjaðrafokið var að fæstir mundu eftir aðalatriði viðtalsins. Ólafur talaði um að Íslendingum væri ekki kenndur leikskilningur í boltaíþróttum, hann er óhræddur við að segja hvað honum finnst. Hann þekkir vel til, er sjálfur einn af betri handboltamönnum heims og bróðir hans Jón Arnór er besti körfuboltamaður landsins sem hefur staðið sig frábærlega í Evrópu. Þeir bræður hafa séð meira en flestir íþróttamenn og talaði ég um þetta við Jón Arnór fyrir nokkrum árum.

Mig langar ekki að móðga neinn, en mig grunar að ástæðan fyrir minni leikskilning hjá okkur Íslendingum (a.m.k. í körfubolta) er að hann er ekki fyrir hendi hjá þeim sem eiga að vera að kenna hann. Þau atriði sem krefjast leikskilnings, eins og hvernig þú átt að bregðast við ýmsum aðstæðum í vörn og sókn, sjá völlinn og geta brugðist við ýmsum stöðum sem upp koma eru flóknari og tímafrekari að kenna en t.d. boltatækni.

Það þarf að brjóta þau niður, vinna í þeim, og tala um þau. Gera mikinn leikskilning og gott skipulag að okkar einkennum, í staðinn fyrir að telja okkur trú um að við séum almennt betri skyttur eða berjumst meira en aðrar þjóðir. Það er því miður ekki rétt.

Ég hef eytt miklum tíma í alls kyns boltaþrautir, sem að sjálfsögðu eru mikilvægar líka. Reyndar líka í "áttuna" sem er ekki mikilvæg á neinn hátt. Of litlum tíma hef ég hins vegar eytt með íslenskum þjálfurum í það sem gæti flokkast sem leikskilningur þar sem farið er dýpra í hlutina. Hvernig á að vinna úr pick and roll og almennt "spacing", hvernig er best að bregðast við hinum ýmsu aðstæðum. Þetta eru atriði sem geta skilið á milli leikmanna og eru ekki beint sterkasta hlið íslenskra leikmanna. Þessa hluti á að kenna krökkum snemma.

Dæmi af Íslandi væri Pavel Ermolinski, það sem skilur hann einna helst frá öðrum bakvörðum þar er leikskilningur, hann sér völlinn betur og veit hvar menn eiga að vera allt í kringum hann. Væntanlega hefur það eitthvað að gera með að hann hefur verið lengi á Spáni og er sonur manns sem komst langt í Evrópu. (OK, þessi síða byrjar á endalausu lofi á Ermolinski ættbálkinn, þetta verður það síðasta, í bili a.m.k.)

Ég tel að fyrir ungling sem er efnilegur þá græði hann meira á því að fá leiðsögn í því hvernig á að spila leikinn rétt og skilja hann heldur en að honum sé fylgd í gegnum allar endurtekningar á tækniatriðum. Ég endurtek að þessi drill og boltaæfingar eru ekki rangar, en ég held við þurfum mun betra jafnvægi í hvernig við nálgumst leikinn. Tæknina geta metnaðarfullir krakkar fínpússað sjálf eða á aukaæfingum.

Ég er ekki mesti reynslubolti evrópska boltans en eftir að hafa talað við þá menn sem hafa verið að spila úti undanfarin ár er greinilegt að það er mikill munur á hvernig við og þessar þjóðir leggjum upp leikinn. Of mikið er um gagnlitlar skotæfingar, s.s skot sem við fáum aldrei í leik. Þegar svo er spilað er alltof lítið um að leikurinn sé brotinn niður og unnið í einhverju markvissu eins og t.d. hvernig á að tvídekka öflugan stóran mann eða mæta ákveðinni pick and roll vörn.

Ég vill því fá fleiri erlenda þjálfara til Íslands, til að kenna bæði leikmönnum og þjálfurum. Kynnast nýrri aðferðarfræði og annari hugsun. Í flestum tilfellum vita þeir meira um evrópskan körfubolta en við. Viðurkennum að við stöndum ekki framarlega. Sækjum okkur því þekkingu og tileinkum okkur hana.

Monday, February 7, 2011

Steinsmaður

 


Síðasti pistill fékk ótrúlega athygli, kom skemmtilega á óvart. Ef hann hjálpar einhverjum þá er ég ánægður. Gallinn við þetta er að þessi blessaða síða er líklega búin að toppa, örfáum dögum eftir að hún fór í loftið. Samt gaman að þessu.

Ég hafði hugsað mér síðuna þannig að u.þ.b vikulega skrifi ég pistil um það sem mig langar til. Þess á milli set ég inn myndbönd, texta eða einhvað lítið og nett, eins og núna. Ég hef t.d. sett inn tvo tengla á leiki hjá okkur. Á móti L.F. Basket og Södertalje, þið finnið það undir "Sundsvall Highlights" ofar á síðunni. Ég ætla ekki að auglýsa það sérstaklega í framtíðinni, en þeir sem hafa áhuga vita hvar þeir eiga að leita. En að öðru.

Ég hef mjög gaman að flottum textum, kvæðum, ljóðum og þess háttar. Ber mikla virðingu fyrir mönnum sem kunna að setja saman góða texta, sama í hvaða formi það er. Það er hæfileiki sem ég væri til í að hafa. Hef ekki fundið það í mér ennþá, en kannski seinna. Torfi bróðir minn heitinn var mjög góður í að setja saman texta, hafði ekkert fyrir því. Ef ég hefði spurt hann hefði hann ábyggilega verið til í að skipta á þeim eiginleika og þeim að spila körfubolta vel. Ég hugsa að ég væri til í að skipta á þessum hæfileikum. Þó ekki væri nema fyrir það að annar eiginleikinn endist þér oft alla tíð en tankurinn klárast yfirleitt á fertugsaldri í íþróttunum.

Ég ætla að setja inn tvö ljóð eftir Stein Steinarr, sem einhverjir kannast við. Í kirkjugarði og Það vex eitt blóm fyrir vestan . Mæli ég með því að fólk gefi sér tíma til að fara yfir þau, ekki renna yfir þau eins og flest annað sem við lesum. Þetta er virkilega flott að mínu mati. Ég veit að þetta er ekki fyrir alla en vonandi hefur einhver gaman af þessu.

Í kirkjugarði.


Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu luku
í þagnar brag.
Ég minnist tveggja handa, er hár mitt struku
einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér sem okkur örlög vefið
svo undarleg.
Það misstu allir allt, sem þeim var gefið
og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir
dauðans ró,
hvort er ég heldur hann sem eftir lifir,
eða hinn sem dó.

Seinna ljóðið orti Steinn eftir að hafa komist að því að hann átti barn fyrir vestan, sem hann hafði aldrei hitt. Ég hef það eftir óstaðfestum heimildum, ef einhver veit betur, endilega látið mig vita.

Það vex eitt blóm fyrir vestan



Það vex eitt blóm fyrir vestan,
og vornóttin mild og góð
kemur á ljósum klæðum
og kveður því vögguljóð.

Ég ann þessu eina blómi,
sem aldrei ég fékk að sjá,
og þangað horfir minn hugur
í hljóðri og einmana þrá.

Og því geng ég fár og fölur
með framandi jörð við il.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
og veit ekki, að ég er til.