Thursday, April 21, 2011

Finals

Þá er komið að lokaúrslitunum hérna í Svíþjóð. Við sópuðum Södertalje frekar auðveldlega. Þeir eru ekkert spes blessaðir. Voru líka með nokkrar pirrandi týpur og því gott að sópa þeim út.

Norrköping er andstæðingurinn í úrslitunum, þeir eru góðir og með mikla breidd. Það kemur helst til vegna þess að þeir eru með þrefalt meira budget en næsta lið í deildinni. Þá eiga lið að vera samkeppnishæf, andskotinn hafi það. Þeir notuðu þetta budget mest til að spila í bæði Baltic League og Eurocup, eru því búnir að spila fáránlegan fjölda leikja.
Ég er ánægður með að fá þá, flott lið með góða umgjörð. Höllin hjá þeim og öll aðstaða er mjög töff. Virðist vera komin fín stemmning í áhorfendurna hjá þeim líka en þeir voru fullrólegir í vetur. Vonandi verða læti og pakkað hjá þeim eins og verður pottþétt hjá okkur.

Við höfum fengið góða pásu á meðan þeir eru að koma úr erfiðri seríu við LF Basket sem kláraðist í kvöld (Miðvd). Yfirleitt er ég hrifnari af því að koma strax úr töff seríu í þá næstu en í þessu tilfelli held ég að pásan hafi gert okkur, a.m.k. mér gott. Búnir að spila 50 leiki í vetur með löngum ferðalög og menn eitthvað farnir að lýjast, ég er ekki vanur því. Vanur að fá reglulega tveggja vikna pásu heima á Íslandi, ekki að það sé eitthvað sem ég sakna en þetta voru vissulega viðbrigði.

Þetta er best of 7 sería, ég hef aldrei spilað í þannig áður. Byrjað á föstudaginn langa og svo spilað annan hvern dag held ég út seríuna. Það er langt ferðalag til Norrköping og alltaf gist eina nótt á hóteli. Verður strembið en svona viljum við samt hafa þetta. Líf og fjör.

Tuesday, April 5, 2011

Það er nauðsynlegt að skjóta þá

Nýverið hafa verið fluttar fréttir um misnotkun á ungum dreng, eitthvað sem er svo óhugnalegt að ég mun ábyggilega sleppa því að lesa smáatriði í því máli. Ég ætla ekki að tala um það mál heldur almennt um þessi mál, samt er varla að ég þori því. Ég læt samt vaða.

Það er ekkert sem reitir mig eins mikið til reiði og misnotkun á börnum, sem betur fer deili ég þeirri skoðun með miklum meirihluta mannkyns. Þá er sama hvernig ofbeldi er verið að beita, andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu. Þetta er viðbjóður sem samfélagið tekur ekki nærri nógu hart á að mínu mati. Andstyggðin á þessum mönnum eykst svo til muna þegar maður eignast börn sjálfur. Vangaveltur eins og "hvað ef einhver myndi..." og allt það fara af stað í hausnum á mörgum við svona fréttir. Ég fer ekki nánar út í það, enda ljótar hugsanir sem engum er hollt að hugsa of mikið um.

Þessir menn fara í fangelsi í örfá ár, ennþá helsjúkir með sína ógeðslegu hvatir og eru í raun bara tifandi tímasprengja sem springur þegar þeir komast aftur út í samfélagið. Þeim er haldið uppi í ágætis fangelsi (sé miðað við önnur lönd), fá að borða reglulega og ýmsa þjónustu sem brotamenn eiga rétt á. Koma svo aftur út í samfélagið engum til gleði, væntanlega ekki einu sinni sínum nánustu þó best sé að fullyrða ekki um það. Mannréttindi eins og þau sem ég taldi upp eru að sjálfsögðu eitthvað sem allir vilja að séu virt. Ég get hinsvegar ekki varist þeirri hugsun að þessir menn eiga ekki einu sinni grunn mannréttindi skilið í mínum huga. Þeir eiga ekki skilið að einhver "hotshot" lögfræðingur noti alla sína þekkingu og klókindi til að minnka refsingu þeirra. Þeir eiga ekki skilið að vera færður matur. Þeir eiga ekki skilið neitt í mínum huga. Ef þú veldur barni svo miklum sársauka og langvarandi vanlíðan þá hefur þú einfaldlega fyrirgert þínum rétti til eins eða neins. Í raun myndi ég ekki sjá á eftir þessum mönnum ef þeim yrði hent í sjóinn. Ég myndi ekki mótmæla fyrir þeirra hönd.

Ég veit ekki hvernig menn í árdaga tóku á mönnum sem gerðu hluti sem misbuðu þeim jafn mikið og svona gjörðir misbjóða okkur. Mig grunar þó sterklega að ferlið hafi ekki verið eins langt og mannúðlegt og það er í dag. Þeir hafa ábyggilega bundið enda á það mjög fljótt og örugglega. Ekki það að ég vilji fara aftur um þúsund ár í siðum og venjum en ég held að sú leið sem þeir fóru (væntanlega, ég þekki það ekki nákvæmlega) sé sanngjarnari.

Mennirnir eru að sjálfsögðu alltaf að brjóta á hvorum öðrum, á ýmsa vegu og oft á viðurstyggilegan hátt. Þeir hafa alltaf gert og munu því miður alltaf gera það. Ég ætla ekki að reyna að fegra aðra glæpi en engir þeirra komast nálægt barnaofbeldi í mínum huga. Það er eitthvað svo hreint við börn að það þarf að gera allt til að vernda þau fyrir hrottum af þessu tagi. Þau geta ekki varið sig, í sumum tilfellum geta þau ekki einu sinni sagt frá því sem gerðist. Ef einhver vill lemja mig eða meiða á einhvern hátt þá á ég a.m.k. möguleika á að verja mig eða að reyna að koma mér úr þeim aðstæðum sem ég er í. Barnið á ekki möguleika.

Ég vill því mun harðari refsingar fyrir þessa menn, sama hvort við skerum undan þeim eða hendum í sjóinn. Þeirra velferð er mun minna virði en vellíðan og sakleysi barna. Við munum seint breyta því að einhverjir menn finna þessar hvatir innra með sér. Gott væri að menn sem finna fyrir þessum hvötum viti að ef þeir láta undan þeim þá verður þeim refsað harkalega. Kannski myndu einhver börn sleppa.

Mér misbýður þetta eins og þið sjáið, ég veit að ég færi ekki sérstök rök fyrir öllu en mér er nokk sama. Þetta er bara það sem mér finnst. Ég ætti ekki að þurfa að taka það fram að allir eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð og að hafa af saklausum mönnum æruna er með því verra sem lagt verður á nokkurn mann. En þeir sem eru sekir um að meiða börn eiga ekkert gott skilið.

Ekki einu sinni súrefni.

Sunday, April 3, 2011

Playoffs

Við unnum deildarkeppnina hérna í Svíþjóð og það örugglega, vorum búnir að tryggja það þegar þrjár umferðir voru eftir. Þá hefðu margir haldið að við ættum þægilega fyrstu umferð í vændum. Það er nú meira helvítið. Við erum í svaka rimmu við liðið sem lenti í 8. sæti, Jamtland, staðan er 2-2. Þeir byrjuðu hræðilega á tímabilinu, gátu ekki neitt. Eftir að hafa skipt um þjálfara sem hefur fengið þá til að spila af meiri hörku en áður eru þeir allt annað lið. Stór þáttur er svo líka að þeir fengu mjög góðan kana á miðju tímabili, en hann er að valda okkur miklum vandræðum.

Þeir hafa greinilega undirbúið sig mjög vel, eru búnir að kortleggja okkur og okkar kerfi. Þeir hafa hingað til í seríunni einnig náð að láta leikina vera spilaða eins og þeir vilja, þ.e. frekar hægt. Við höfum skorað flest allra liða í vetur og viljum hafa leikinn hraðan, enda með frekar lágvaxið lið miðað við önnur lið í deildinni. Þeir hafa náð að hægja á leiknum með því að brjóta mikið snemma í sóknum og stoppa leikinn. Í sókninni hlaupa þeir svo sín kerfi alltaf alveg til enda, rúlla í gegnum þau þar til lítið er eftir af klukkunni og vonast eftir að við missum einbeitningu einhvern tímann í sókninni. Ef það klikkar þá hafa þeir geta hent boltanum á Darius Hargrove sem er mjög lunkinn að skora einn á einn og bjarga þeim.
Við höfum einnig kortlagt þá mjög vel og gengur ágætlega að stoppa þá en erum í basli í sókninni. Fáum ekki þær auðveldu körfur sem við höfum fengið í allan vetur, uppúr kerfum eða hraðaupphlaupum. Við vorum kannski farnir að taka þeim sem sjálfsögðum hlut.

Oddaleikurinn er á morgun, þó við hefðum viljað klára þetta í síðasta leik er hægt að horfa á jákvæðum augum á að þurfa að spila 5. leikinn. Þetta eru leikirnir sem allir muna eftir þegar tímabilið klárast og jafnvel ferillinn. Það man enginn eftir þýðingarlitlum leikjum í nóvember þegar lítið er undir. Þetta er því tíminn. Ef það gengur ekki, sem er alls ekki á stefnuskránni þá erum við ekki nógu góðir og eigum titilinn ekki skilið.
Annað sem er jákvætt er að ef (þegar!) við vinnum þá erum við vel undirbúnir fyrir næstu rimmu. Ég held að það sé gott fyrir lið að fara í gegnum erfiðar seríur, heldur öllum við efnið.

Gameplanið á morgun er einfalt, erum reyndar með fullt af "X og O" tilbúið sem er mjög mikilvægt en aðalmálið verður að keyra upp hraðann, spila án alls ótta og berja frá okkur. Það ætti að skila sigri í hús. Einfalt, ekki satt? Þá er best að gera það bara.

Fyrir þá sárafáu sem eru í Svíþjóð og lesa þetta þá er leikurinn sýndur á TV 10 kl 19. Gæti svo verið að það sé eitthvað stream á netinu, veit ekki um það. Ef einhver hefur nægan áhuga er svo alltaf hægt að biðja góðan vin í Svíþjóð um að setja tölvuna fyrir framan sjónvarpið og horfa á leikinn í gegnum Skype. Hef prófað það og það er ágætt.