Sunday, April 3, 2011

Playoffs

Við unnum deildarkeppnina hérna í Svíþjóð og það örugglega, vorum búnir að tryggja það þegar þrjár umferðir voru eftir. Þá hefðu margir haldið að við ættum þægilega fyrstu umferð í vændum. Það er nú meira helvítið. Við erum í svaka rimmu við liðið sem lenti í 8. sæti, Jamtland, staðan er 2-2. Þeir byrjuðu hræðilega á tímabilinu, gátu ekki neitt. Eftir að hafa skipt um þjálfara sem hefur fengið þá til að spila af meiri hörku en áður eru þeir allt annað lið. Stór þáttur er svo líka að þeir fengu mjög góðan kana á miðju tímabili, en hann er að valda okkur miklum vandræðum.

Þeir hafa greinilega undirbúið sig mjög vel, eru búnir að kortleggja okkur og okkar kerfi. Þeir hafa hingað til í seríunni einnig náð að láta leikina vera spilaða eins og þeir vilja, þ.e. frekar hægt. Við höfum skorað flest allra liða í vetur og viljum hafa leikinn hraðan, enda með frekar lágvaxið lið miðað við önnur lið í deildinni. Þeir hafa náð að hægja á leiknum með því að brjóta mikið snemma í sóknum og stoppa leikinn. Í sókninni hlaupa þeir svo sín kerfi alltaf alveg til enda, rúlla í gegnum þau þar til lítið er eftir af klukkunni og vonast eftir að við missum einbeitningu einhvern tímann í sókninni. Ef það klikkar þá hafa þeir geta hent boltanum á Darius Hargrove sem er mjög lunkinn að skora einn á einn og bjarga þeim.
Við höfum einnig kortlagt þá mjög vel og gengur ágætlega að stoppa þá en erum í basli í sókninni. Fáum ekki þær auðveldu körfur sem við höfum fengið í allan vetur, uppúr kerfum eða hraðaupphlaupum. Við vorum kannski farnir að taka þeim sem sjálfsögðum hlut.

Oddaleikurinn er á morgun, þó við hefðum viljað klára þetta í síðasta leik er hægt að horfa á jákvæðum augum á að þurfa að spila 5. leikinn. Þetta eru leikirnir sem allir muna eftir þegar tímabilið klárast og jafnvel ferillinn. Það man enginn eftir þýðingarlitlum leikjum í nóvember þegar lítið er undir. Þetta er því tíminn. Ef það gengur ekki, sem er alls ekki á stefnuskránni þá erum við ekki nógu góðir og eigum titilinn ekki skilið.
Annað sem er jákvætt er að ef (þegar!) við vinnum þá erum við vel undirbúnir fyrir næstu rimmu. Ég held að það sé gott fyrir lið að fara í gegnum erfiðar seríur, heldur öllum við efnið.

Gameplanið á morgun er einfalt, erum reyndar með fullt af "X og O" tilbúið sem er mjög mikilvægt en aðalmálið verður að keyra upp hraðann, spila án alls ótta og berja frá okkur. Það ætti að skila sigri í hús. Einfalt, ekki satt? Þá er best að gera það bara.

Fyrir þá sárafáu sem eru í Svíþjóð og lesa þetta þá er leikurinn sýndur á TV 10 kl 19. Gæti svo verið að það sé eitthvað stream á netinu, veit ekki um það. Ef einhver hefur nægan áhuga er svo alltaf hægt að biðja góðan vin í Svíþjóð um að setja tölvuna fyrir framan sjónvarpið og horfa á leikinn í gegnum Skype. Hef prófað það og það er ágætt.

4 comments:

  1. Good luck.

    Bestu kveðjur frá Japan.

    ReplyDelete
  2. Góður leikur hjá þér í gær. Til hamingju með þetta (þó svo ég hafi haldið með Jämtland).Sá einnig leik nr. 4 hér í Östersund, spennandi og skemmtilegur leikur. Gaman að sjá hversu vel gengur hjá þér á þínu fyrsta seasoni og fylgjast með gömlum Skallagrímsmanni í Sverige. Gangi ykkur vel í næstu umferð!

    Andri

    ReplyDelete
  3. Takk Andri

    Íslendingur ætti að sjálfsögðu að halda með Sundsvall!

    ReplyDelete
  4. Ég "hejar på" Sundsvall það sem eftir er tímabils! Svo kemurðu og spilar fyrir Jämtland næsta.

    ReplyDelete