Monday, February 28, 2011

Lélegasta golfmót sögunnar

 


Golf er yndisleg íþrótt. Hin fullkomna íþrótt að mínu mati. Það er eitthvað svo fáránleg áskorun að koma lítilli kúlu í litla holu í mörg hundruð metra fjarlægð í 3-5 höggum (ef þú stefnir á parið). Mun flóknari íþrótt en t.d. boltaíþróttirnar þar sem oft er hægt að komast áfram á líkamlegum yfirburðum og almennri baráttu. Það er helsti (af mörgum) gallinn við golfið hjá mér, þegar illa gengur þá er ekki gott að setja hausinn undir sig og ætla bara að berjast og taka vel á því. Ég missi því oft hausinn gjörsamlega, þvílíkur pirringur sem þessi íþrótt getur valdið. Um leið og ég held að ég sé kominn með þetta þá fer allt til andskotans.

Mig langar að segja frá golfmóti sem við félagarnir að vestan héldum á Víkurvelli í Stykkishólmi í sumar. Mikið var blásið og talað um mótið á Facebook fyrir mót en það var sameiginleg ákvörðun okkar að ræða það ekki eftir mót. Ég vann meira að segja mótið (já það var svona lélegt) en ég vildi ekki tala um það. Við félagarnir erum allir álíka lélegir og því von á öllu en við komum samt sjálfum okkur á óvart með arfaslakri frammistöðu. Sérstaklega þar sem við æfðum grimmt fyrir mótið, einn okkar gekk svo langt að ráða Úlfar Jónsson margfaldan Íslandsmeistara sem kennara. Sá átti að sjálfsögðu mörg gloríu högg þennan dag og þá heyrðist oft "helvítið hann Úlfar!!" Eins og Úlfar hafi í raun eyðilagt fallega sveiflu.

Ég sá um mótið og ákvað að hafa þetta veglegt. Nokkur verðlaun, nándarverðlaun, lengsta upphafshögg, fyrir hvert par, hvern fugl (líklegt) og að sjálfsögðu sigurvegarann. Það var enginn forgjöf að sjálfsögðu, það er enginn alvöru sigurvegari sem vinnur með forgjöf. Ég fullyrði að þetta var slakasta fjögurra manna mót í sögu golfsins og þá meina ég um allan heim, ekki aðeins á Íslandi. Ef ekki, þá væri ég til í að hlæja að þeim fjórmenningum sem voru slakari en við félagarnir þennan dag.

Hérna eru nokkrar staðreyndir um þetta mót.

Mótið vannst á 125 höggum, par vallarins er 70, það gera 55 högg yfir pari. Þess vegna sagðist ég bara hafa unnið mótið þegar fólk spurði. Fór ekkert nánar út í það.

Það var tekið 9. högg á teig á þessu móti, sá maður var ekki með lélegasta skorið á holunni.

Versti níu holu hringurinn var 89 högg, parið á 9 holur er 35. Það eru 54 höggum yfir pari á níu holur, toppiði það. Þess skal getið að þessi maður tapaði ekki mótinu.

Við komum með málband til að mæla nándarverðlaun, þurftum ekki að taka það upp því aðeins eitt högg af átta var inná flöt. Það var u.þ.b. 30 metra frá holu. Sjálfkrafa nándarverðlaun.

Það var aldrei spenna um hvort einhver næði fugli , við hefðum þurft að hafa bogey verðlaun því við náðum ekki einu sinni parinu.

Ég man ekki töluna nákvæmlega en heildarskor hópsins var á milli 550 og 600 högg á 18 holum. Fjórir spilarar.

Hæsta skor á einni holu var held ég 18 högg, en var reyndar par 5 hola svo það er ekki svo slæmt.

Einn okkar skilaði skori uppá 70 högg á seinni hringnum. Þykir ekki gott en var samt bæting uppá heil 19 högg frá fyrri hring.


Þetta var því ansi skrautlegt mót. Ég hef oft klikkað í körfuboltaleik á ögurstundu, klikkað skotum, léleg vörn eða misst af frákasti. Það að klúðra á ögurstundu er oft kallað að "choka". En það að choka er ekki bara að klikka á ákveðnu atriði, það er hugarástand og tilfinning sem ég kynntist á þessu móti. Aldrei á mínum körfuboltaferli hef ég verið jafn stressaður og þegar forystan mín var að hverfa á síðustu holunum. Ég kveið fyrir hverju höggi, vildi bara ljúka því af. Ég gat varla haldið á kylfunni og átti meira að segja nokkur vindhögg, eitthvað sem ég hafði ekki gert allt sumarið. Ég toppaði svo chokið með því að dúndra í bekk á kvennateignum á einni holunni. Það var 5. högg af teig. Þessar síðustu holur voru svo lélegar hjá mér að ég held að handalaus maður hefði unnið mig.

Að lokum vill ég taka fram að það var vont veður þennan dag, ef einhver skyldi vera að spá í hvað klikkaði.

Tuesday, February 22, 2011

Stjörnuleikir

 



Það var stjörnuleikshelgi hérna í Svíþjóð um helgina, með svipuðu sniði og í NBA. Þriggja stiga keppni, svokallað skills challenge, troðslukeppni og svo stjörnuleikurinn sjálfur.
Það skemmtilegasta að mínu mati við stjörnuleikinn er að vera valinn, það er alltaf gaman og töluverður heiður. Ég er þakklátur fyrir það.

Ég get hinsvegar ekki sagt að ég hafi gaman af stjörnuleikjunum sjálfum. Kannski er ég bara bitur þar sem þessir leikir henta mér ákaflega illa, endalausar troðslur, þriggja stiga skot langt fyrir utan línu er ekki alveg fyrir mig. Svo er eiginlega bannað að spila vörn af krafti og berjast. Ég er því oft bara fyrir í svona leikjum. Ég reyni að hlýða þessum óskrifuðu reglum þó mig hafi stundum langað til að vera fíflið sem tekur þessu aðeins of alvarlega með því t.d. að brjóta hressilega á einum ungum kana þegar hann reynir við fimmtu troðsluna sína í leiknum.

Stjörnuleikurinn sjálfur finnst mér alltaf verstur á svona viðburðum, skotkeppnir, þrautir og troðslukeppnir eru betri þó ég sé ekkert sérlega hrifinn af því. En þar eru menn a.m.k. að keppa, sem er grundvallaratriði ef það á að vera gaman að horfa á íþróttir. Menn verða að vera að keppast um eitthvað. Geta leikmanna finnst mér engu skipta ef þeir vilja ekki vinna og taka á hinu liðinu, þess vegna heillar stjörnuleikurinn í NBA mig akkúrat ekki neitt. Þó þar séu bestu íþróttamenn heims þá verður þetta óáhugavert þegar menn eru bara að dúlla sér við að troða á milli þess sem þeir hlæja með andstæðingunum og spjalla um hvað það var nú gaman á spilavítinu í gærkvöldi.

Svona stjörnuleikir tíðkast ekki eins mikið í öðrum íþróttum, helst er að í fótbolta séu einhverskonar kveðjuleikir þar sem hrúgað er saman góðum leikmönnum. Það hljóta að vera hrikalega leiðinlegir leikir. Ekki mjög merkilegt að sóla sig í gegnum vörnina ef vörninni er alveg sama hvort þú skorir. Ég myndi ekki gráta það þó svona leikir yrðu ekki framar í körfunni en fólk virðist hafa gaman að þessu og ég virði það.

Ég held samt að ég hafi spilað minn síðasta stjörnuleik, áttaði mig á því í gær þegar ég var að reyna að fela þá staðreynd að ég var sígeispandi á bekknum að hugsa um hvað við fengjum að borða eftir leik, hvort ég fengi eitthvað kjöt eða fimmtándu pastamáltíðina í röð. Ég vissi ekki hvað staðan var í leiknum lengst af, eftir upphitun í hálfleik þá áttaði ég mig á því að við vorum í raun 15 stigum undir, ég hafði lítið fylgst með.
Þetta er því komið gott.

Tuesday, February 15, 2011

Níski Rússinn

 



Ég bölva oft verðinu á hlutum hérna í Svíþjóð. Þá aðallega eftir að ég er búinn að reikna u.þ.b. hvað þeir kosta í íslenskum krónum. Þó ég fái útborgað í sænskum krónum þá er nú planið að leggja fyrir og senda heim, því reikna ég alltaf í huganum hvað hlutir kosta í ISK.
Lengst af í vetur hefur 1 SEK verið um 17.5 ISK. Er núna í rúmum 18. Skilst að fyrir nokkrum árum í góðærinu sem við fengum að láni hafi hún verið um 9 ISK. S.s. þetta er alveg agalegt þegar ég versla en fínt þegar ég sendi heim. Reyndar er oft talað um óvenjulegt ástand í þessum málum. Það er ábyggilega rétt en nú eru komin nokkur ár þar sem þetta hefur verið svona. Ég lít því á þetta sem eðlilegt gengi þangað til þetta breytist eitthvað.

Hér eru örfá dæmi um hvað mismunandi hlutir kosta í Svíþjóð, reiknað í ISK.

Bensínlíter kostar 240 kr.
Bleyjupakki kostar 2150 kr.
Gosflaska 1/2 líter kostar 320 kr.
Kaffibolli á kaffihúsi kostar 550 kr.

Þið sjáið að þetta er fokdýrt. Íslenska krónan gerir það að verkum að ég verð mun nískari. Sem er einmitt ástæðan fyrir þessum pistli.
Þegar krónan var sem sterkust var þessu auðvitað öfugt farið. Allt sem við keyptum í útlöndum var nánast gefins. Ég a.m.k. leit svo á að ég væri að græða á öllum kaupum í USA, þótt ég þyrfti kannski ekki fimm íþróttabuxur og fjögur pör af skóm, þá var þetta bara svo andskoti ódýrt.

Meðan þetta ástand varði þá var líka allt á Íslandi rándýrt fyrir útlendinga sem reiknuðu í huganum yfir í sína mynt, eins og ég geri núna. Ég hef spilað með mönnum frá Rússlandi, Serbíu og Bandaríkjunum sem einfaldlega hættu við að borða með liðinu því það var svo dýrt. Einu sinni borgaði ég pylsu fyrir kana sem ég spilaði með, bara svo að hann borðaði eitthvað fyrir leik, hann var ekki á því að borga 5 dollara fyrir pylsu. Ég spilaði með Rússa sem setti pizzusneiðar í vasann á skítugri vinnuúlpunni eftir að hafa verið boðið í pizzuhlaðborð. Hann vissi sem var að næsta máltíð myndi kosta hann fleiri rúblur en hann kærði sig um að eyða. Ég hefði nú samt mælt með því að hann hefði fengið plastpoka utan um sneiðarnar, bragðast ábyggilega verr með öllu rykinu.

Þegar einn dollari var jafnvirði 60 ISK þá kostaði það Bandaríkjamann 40 dollara að fá sér pizzu á 2400 kr. Skiljanlegt að þeir hafi hugsað sig tvisvar um áður en þeir borguðu. Ætli þeir geti ekki fengið sér eins pizzu á 10 dollara í Bandaríkjunum.
Ekki þekki ég sögu gjaldmiðilsins í Rússlandi en væntanlega höfðu þeir svipaða ástæðu fyrir því að borga ekki. Þó ég sé ekki byrjaður að stinga mat í vasann þá skil ég þessa menn núna. Nú er ég níski Rússinn. Það er ekki gaman.

Saturday, February 12, 2011

Leikskilningur

 


Margir muna eftir viðtali við Ólaf Stefánsson snemma árs 2008, þar viðraði hann þá hugmynd að fá mig í handboltalandsliðið, þó minni alvara hafi verið í þeirri hugmynd en margir halda. Viðtalið vakti mikla athygli, kannski skiljanlega en það versta við allt fjaðrafokið var að fæstir mundu eftir aðalatriði viðtalsins. Ólafur talaði um að Íslendingum væri ekki kenndur leikskilningur í boltaíþróttum, hann er óhræddur við að segja hvað honum finnst. Hann þekkir vel til, er sjálfur einn af betri handboltamönnum heims og bróðir hans Jón Arnór er besti körfuboltamaður landsins sem hefur staðið sig frábærlega í Evrópu. Þeir bræður hafa séð meira en flestir íþróttamenn og talaði ég um þetta við Jón Arnór fyrir nokkrum árum.

Mig langar ekki að móðga neinn, en mig grunar að ástæðan fyrir minni leikskilning hjá okkur Íslendingum (a.m.k. í körfubolta) er að hann er ekki fyrir hendi hjá þeim sem eiga að vera að kenna hann. Þau atriði sem krefjast leikskilnings, eins og hvernig þú átt að bregðast við ýmsum aðstæðum í vörn og sókn, sjá völlinn og geta brugðist við ýmsum stöðum sem upp koma eru flóknari og tímafrekari að kenna en t.d. boltatækni.

Það þarf að brjóta þau niður, vinna í þeim, og tala um þau. Gera mikinn leikskilning og gott skipulag að okkar einkennum, í staðinn fyrir að telja okkur trú um að við séum almennt betri skyttur eða berjumst meira en aðrar þjóðir. Það er því miður ekki rétt.

Ég hef eytt miklum tíma í alls kyns boltaþrautir, sem að sjálfsögðu eru mikilvægar líka. Reyndar líka í "áttuna" sem er ekki mikilvæg á neinn hátt. Of litlum tíma hef ég hins vegar eytt með íslenskum þjálfurum í það sem gæti flokkast sem leikskilningur þar sem farið er dýpra í hlutina. Hvernig á að vinna úr pick and roll og almennt "spacing", hvernig er best að bregðast við hinum ýmsu aðstæðum. Þetta eru atriði sem geta skilið á milli leikmanna og eru ekki beint sterkasta hlið íslenskra leikmanna. Þessa hluti á að kenna krökkum snemma.

Dæmi af Íslandi væri Pavel Ermolinski, það sem skilur hann einna helst frá öðrum bakvörðum þar er leikskilningur, hann sér völlinn betur og veit hvar menn eiga að vera allt í kringum hann. Væntanlega hefur það eitthvað að gera með að hann hefur verið lengi á Spáni og er sonur manns sem komst langt í Evrópu. (OK, þessi síða byrjar á endalausu lofi á Ermolinski ættbálkinn, þetta verður það síðasta, í bili a.m.k.)

Ég tel að fyrir ungling sem er efnilegur þá græði hann meira á því að fá leiðsögn í því hvernig á að spila leikinn rétt og skilja hann heldur en að honum sé fylgd í gegnum allar endurtekningar á tækniatriðum. Ég endurtek að þessi drill og boltaæfingar eru ekki rangar, en ég held við þurfum mun betra jafnvægi í hvernig við nálgumst leikinn. Tæknina geta metnaðarfullir krakkar fínpússað sjálf eða á aukaæfingum.

Ég er ekki mesti reynslubolti evrópska boltans en eftir að hafa talað við þá menn sem hafa verið að spila úti undanfarin ár er greinilegt að það er mikill munur á hvernig við og þessar þjóðir leggjum upp leikinn. Of mikið er um gagnlitlar skotæfingar, s.s skot sem við fáum aldrei í leik. Þegar svo er spilað er alltof lítið um að leikurinn sé brotinn niður og unnið í einhverju markvissu eins og t.d. hvernig á að tvídekka öflugan stóran mann eða mæta ákveðinni pick and roll vörn.

Ég vill því fá fleiri erlenda þjálfara til Íslands, til að kenna bæði leikmönnum og þjálfurum. Kynnast nýrri aðferðarfræði og annari hugsun. Í flestum tilfellum vita þeir meira um evrópskan körfubolta en við. Viðurkennum að við stöndum ekki framarlega. Sækjum okkur því þekkingu og tileinkum okkur hana.

Monday, February 7, 2011

Steinsmaður

 


Síðasti pistill fékk ótrúlega athygli, kom skemmtilega á óvart. Ef hann hjálpar einhverjum þá er ég ánægður. Gallinn við þetta er að þessi blessaða síða er líklega búin að toppa, örfáum dögum eftir að hún fór í loftið. Samt gaman að þessu.

Ég hafði hugsað mér síðuna þannig að u.þ.b vikulega skrifi ég pistil um það sem mig langar til. Þess á milli set ég inn myndbönd, texta eða einhvað lítið og nett, eins og núna. Ég hef t.d. sett inn tvo tengla á leiki hjá okkur. Á móti L.F. Basket og Södertalje, þið finnið það undir "Sundsvall Highlights" ofar á síðunni. Ég ætla ekki að auglýsa það sérstaklega í framtíðinni, en þeir sem hafa áhuga vita hvar þeir eiga að leita. En að öðru.

Ég hef mjög gaman að flottum textum, kvæðum, ljóðum og þess háttar. Ber mikla virðingu fyrir mönnum sem kunna að setja saman góða texta, sama í hvaða formi það er. Það er hæfileiki sem ég væri til í að hafa. Hef ekki fundið það í mér ennþá, en kannski seinna. Torfi bróðir minn heitinn var mjög góður í að setja saman texta, hafði ekkert fyrir því. Ef ég hefði spurt hann hefði hann ábyggilega verið til í að skipta á þeim eiginleika og þeim að spila körfubolta vel. Ég hugsa að ég væri til í að skipta á þessum hæfileikum. Þó ekki væri nema fyrir það að annar eiginleikinn endist þér oft alla tíð en tankurinn klárast yfirleitt á fertugsaldri í íþróttunum.

Ég ætla að setja inn tvö ljóð eftir Stein Steinarr, sem einhverjir kannast við. Í kirkjugarði og Það vex eitt blóm fyrir vestan . Mæli ég með því að fólk gefi sér tíma til að fara yfir þau, ekki renna yfir þau eins og flest annað sem við lesum. Þetta er virkilega flott að mínu mati. Ég veit að þetta er ekki fyrir alla en vonandi hefur einhver gaman af þessu.

Í kirkjugarði.


Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu luku
í þagnar brag.
Ég minnist tveggja handa, er hár mitt struku
einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér sem okkur örlög vefið
svo undarleg.
Það misstu allir allt, sem þeim var gefið
og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir
dauðans ró,
hvort er ég heldur hann sem eftir lifir,
eða hinn sem dó.

Seinna ljóðið orti Steinn eftir að hafa komist að því að hann átti barn fyrir vestan, sem hann hafði aldrei hitt. Ég hef það eftir óstaðfestum heimildum, ef einhver veit betur, endilega látið mig vita.

Það vex eitt blóm fyrir vestan



Það vex eitt blóm fyrir vestan,
og vornóttin mild og góð
kemur á ljósum klæðum
og kveður því vögguljóð.

Ég ann þessu eina blómi,
sem aldrei ég fékk að sjá,
og þangað horfir minn hugur
í hljóðri og einmana þrá.

Og því geng ég fár og fölur
með framandi jörð við il.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
og veit ekki, að ég er til.

Saturday, February 5, 2011

Eftirsjá íþróttamanns

 


Ég er ágætur i korfubolta, held ég geti alveg sagt það. Jafnvel nokkuð góður, en það fer eftir því við hvað er miðað. Mér hefur gengið mjög vel á Íslandi, gekk fínt i Hollandi persónulega og svo held ég að allir séu sáttir við mig hérna i Svíþjóð.
Þetta hljómar reyndar betur en það kannski er því þessi þrjú lönd eru ekki beint sterkustu körfuboltaþjóðir heims. Þó deildirnar séu ágætar og gott að standa sig þar eru mjög margar deildir sterkari, NBA, NBDL, spænska ACB deildin, 1. Deild á Spáni, ítalska, gríska, franska, tyrkneska, kínverska, slóvenska, serbneska, ástralska,rússneska, brasilíska og ég gæti talið lengur.

Gæti ég spilað þar? Ábyggilega gæti ég plummað mig í einhverjum af þessum deildum, þá kannski í minna hlutverki.
Eitt veit ég þó og það er að ef ég hefði alltaf gert jafn mikið og ég mögulega gat til að bæta mig, þá væri ég að spila í einhverjum af þessum deildum í dag, væri með betri samning og kannski búinn að sjá enn fleiri hluti en ég hef séð núna.

Ég reyndar kem frá landi þar sem ekki er mikil hefð fyrir aga,skipulagningu, þjálfun er heilt yfir á lágu plani og leikskilningur sáralítill. Það er samt engin afsökun, ég fékk frábær tækifæri til að læra af mönnum sem vissu og vita enn meira en ég um leikinn. Hvernig á að spila hann og hvað þarf til. Því miður hlustaði ég ekki alltaf og forgangsraðaði ekki rétt.

Það voru mörg sumur sem ég gerði nánast ekkert til að verða betri, sumrinu 2002 eyddi ég að horfa á HM í fótbolta, drekkandi fleiri lítra af coke og kaffi en ég kæri mig um að muna eftir, fór þess á milli á böll í Hreðavatnsskála. Ég horfði nánast á hvern einasta leik, en í dag man ég ekki einu sinni hver vann mótið. Árin eftir að ég flutti í Stykkishólm eyddi ég endalausum tíma í að horfa á enska boltann, á sunnudagsmorgnum, mánudagskvöldum og nánast alla leiki sem ég gat. West Ham-Derby í beinni hljómar ekki spennandi en ég missti ekki af því. Ég hef ótal svipuð dæmi, en óþarfi er að telja þau upp, þið skiljið hvað ég á við.


Ég er ekki að segja að það sé slæmt að horfa á fótbolta, spila tölvuleiki, fara á böll eða gera það sem manni langar þá stundina en það að komast þangað sem maður vill krefst meiri fórna en flestir eru tilbúnir í. Á þessum yngri árum hugsa strákar yfirleitt ekki til þeirrar staðreyndar að þeir verða ekki eilífir í þessu, þeir hugsa ekki um alla möguleikana sem meiri vinna gæti skilað þeim. Aldurinn nær okkur öllum á endanum, því eins og maðurinn sagði, "you can't bring back youth".
Ég hugsa oft "hvað ef?" og fæ samviskubit við tilhugsunina.

Í Borgarnes á sínum tíma komu tveir þjálfarar sem hjálpuðu mér mikið en samt tók ég bara inn brot af því sem þeir höfdu fram að færa. Dragisa Saric og Alexander Ermolinski. Við í liðinu nöldruðum yfir hinu og þessu sem þeir gerðu (t.d lyftingar og skotæfingar sem kröfðust þess að menn blésu úr nös, og tækju fleiri en 10 skot). Sorgleg staðreynd, þeir vissu svo mikið, mikið meira um leikinn en við, höfðu spilað á mjög háu leveli Evrópu á meðan við höfðum flestir eytt okkar ferli í að hita upp i ellefu manna hraðaupphlaupi og svo spilað frjálst. Enginn okkar var undir áhrifum frá mönnum sem höfðu náð langt i íþróttinni. Þetta er grátbroslegt, menn úr Skallagrím efuðust um það sem þessir menn höfðu fram að færa.


Hversu mikið betri væri ég ef ég hefði hlustað á Ermolinski, gert það sem hann bað mig um, sem var einfaldlega ad æfa meira og hlusta á hann tala um leikinn af dýpt, tileinka mér hluti eins og varnarstöður,hvar er best að vera i sókninni a hinum og þessum stundum, vinna úr pick og roll (mjög algengt leikkerfi í körfubolta), hreyfa sig án bolta? Öðlast leikskilning. Læra.
Mikið væri ég til í að endurtaka þennan tíma og gera hlutina öðruvísi.

Hversu mikið betri skytta væri ég ef ég hefði eytt tíma á sumrin og á morgnana til að skjóta 6-700 skotum á dag? Auðvitað væri ég frábær skytta í dag, það eitt og sér myndi gera mig að mun betri leikmanni en ég er.

Hversu mikið sterkari ,sneggri og með meiri stökkkraft væri ég ef ég hefði lyft rétt og af krafti frá 16 ára aldri? Já þetta er leiðinleg tilhugsun.

Þessi pistill hljómar eins og ég hafi aldrei gert neitt, en ég æfði sæmilega og ábyggilega meira en flestir íslenskir körfuboltamenn, en möguleikarnir til að gera betur og stíga næstu skref voru allt í kringum mig.

Síðustu tvö ár hef ég sinnt þessu mun betur og held ég hafi tekið miklum framförum. Samt er enn pláss til að bæta það hvernig maður lifir og æfir. Þetta er allt spurning um að temja sér aga og venjur. Þjálfarinn minn hérna í Svíþjóð elskar t.d. þessa linu frá Aristóteles, "We are creatures of habit, we are what we repeatedly do, excellence therefore is not an act, but a habit."
Mikið til í þessu.
Í dag hugsa ég meira um hvað eru mínir ávanar og trúið mér. Þeir eru nokkrir slæmir. Ég reyni stöðugt að laga það, með misjöfnum árangri.

Þær spurningar sem ég hef spurt og það sem ég hef talað um eru allt hlutir sem ég verð að lifa við, get ekki breytt því sem liðið er. Ég get gefið ungum íþróttamönnum sem hafa einlægan áhuga á því að ná langt það ráð að forðast það að þurfa seinna meir að velta fyrir sér "hvað ef?" spurningunum. Gera þetta eins vel og hægt er, hafa íþróttina algjörlega i fyrsta sæti því það dugir ekkert minna. Það verður enginn sérstaklega góður af því að æfa 3-4 sinnum í viku, klukkutíma í senn.

Í dag myndi ég a.m.k þiggja samning frá liði i spænsku úrvalssdeildinni eða NBA, en ég efast um að hann sé á leiðinni.
En hvað ef?

Thursday, February 3, 2011

Íþróttamenn í viðtölum

 


Klassísk íþróttasvör

Svipað og með stjórnmálamenn þá tala íþróttamenn yfirleitt í frösum og stöðluðum setningum sem gefa lítið upp. Stundum er um hreina lygi að ræða. Reyndar verður að hafa það í huga að menn eru oft teknir í viðtöl örfáum sekúndum eftir að leik lýkur með adrenalínið í botni og allt á fullu í hausnum. Þá kemur yfirleitt ekki mikið af viti út úr þeim. Algengt er að þjálfarar dásami vörnina í viðtölum eftir leik því það er bara forritað í þá að vörnin skili sigrum, jafnvel þó að þeir hafi fengið á sig 95 stig og greinilega unnið leikinn á flottum sóknarleik. Ég þekki það að stundum er ég beðinn um að útskýra eitthvað úr leikjum og geri mér grein fyrir því að ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að svara spurningunni almennilega á þeim stutta tíma sem er í boði. Þá er oft gripið til setninga eins og "við fórum bara að spila vörn" eða "menn sýndu bara úr hverju þeir eru gerðir".

Ég ætla að fara yfir nokkra frasa og vinsælar setningar hjá íþróttamönnum.


"Sýnd veiði en ekki gefin"
Oft notað þegar góð lið eru að fara að mæta slökum andstæðingum. Gefur slakara liðinu örlitla virðingu og tekur í leiðinni smá pressu af betra liðinu. Reyna að benda á að andstæðingurinn sé ekki jafn lélegur og allir halda. Sem hann er reyndar oftast.
Þessi setning gæti líka verið sögð svona.
"Við erum að sjálfsögðu með miklu betra lið og ættum að vinna þetta nokkuð létt en viljum samt ekki vera of góðir með okkur því sólin hefur skinið á hundsrass áður"
Ég væri til í að sjá tölfræði yfir úrslit leikja þar sem þessi lína var notuð í viðtali fyrir leik. Grunar að tölfræðin sé um 98% taphlutfall hjá liðinu sem var "sýnd veiði en ekki gefin"

"Hugsum bara um næsta leik"
Klassískt svar. En samt er þetta oft bara lygi. Flestir íþróttamenn hugsa um eitthvað stærra en næsta leik, sér í lagi ef næsti leikur er alls ekkert spennandi. Ég hef t.d. öll mín ár spáð í möguleikum í úrslitakeppni löngu fyrir úrslitakeppnina sjálfa. Hugur flestra er á því stóra sem í boði er.

Bikarsvarið
Það er dregið í bikarnum á morgun og alltaf er spurt hver sé óskaandstæðingurinn. Undantekningalaust er það ekki gefið upp heldur er svarað svona "við eigum okkur enga óskamótherja". Stundum er reyndar sagt að óskin sé að fá heimaleik sem er reyndar eina svarið sem kemur við þessari spurningu en ætti ekki að þurfa, það er svo augljós ósk. Það hljóta allir að sjá að menn vonast eftir að fá slökustu andstæðingana, eða a.m.k. ekki það lið sem er erfiðast. Það væri góð tilbreyting að heyra einu sinni svar á þessum nótum, "ég væri til í að mæta Val á heimavelli, það ætti að vera nokkuð öruggt" eða "það væri gott að sleppa við að fá KR á útivelli, það væri agalegt svona í 16 liða úrslitunum, betra að geyma þá þar til seinna"
Í raun ótrúlegt að íþróttafréttamenn spyrji enn að þessu, það er fullreynt að fá svar við spurningunni.

Andstæðingurinn gerir aldrei neitt til að vinna leiki.
Íþróttamönnum er ákaflega illa við (kannski skiljanlega) að viðurkenna að andstæðingurinn hafi gert einhvað til að vinna þá. Vilja alltaf láta líta út eins og allar mögulegar útkomur leikjanna séu í þeirra eigin höndum, eins og hitt liðið æfi ekki, undirbúi sig ekki, hafi hæfileika eða sjálfstæðan vilja. Dæmi er að góður körfuboltamaður snögghitnar og setur upp sóknarsýningu í seinni hálfleik og drepur eitthvað lið, góð skytta í handbolta setur 8 mörk á stuttum tíma. Ef andstæðingurinn er spurður eftir leik hvað hafi gerst þá er ekki svarað og bent á hið augljósa "heyrðu, við bara réðum ekkert við þennan gaur/lið, þeir spiluðu virkilega vel og við réðum lítið við það." Svörin eru hinsvegar oft í þessum dúr, "við bara hættum að spila vörn" eða "mínir menn misstu bara einbeitningu".

Karakter

Þetta er einhvað ofnotaðasta orð íþróttamannsins og fer raunar í taugarnar á mér þegar menn mega ekki setja nokkur stig/mörk án þess að tala um frábæran karakter.
Eftirfarandi hlutir kalla á að orðið "karakter" sé notað í viðtali.

Lið vinnur upp forskot eftir að hafa byrjað illa.
Lið vinnur án lykilmanns.
Lið vinnur á útivelli.
Lið vinnur mikilvægan sigur.

Klikkar aldrei. Eftir viðburðaríka íþróttahelgi má búast við að um að þó nokkur fjöldi íþróttamanna um allt land hafi sýnt góðan karakter. Samt hef ég aldrei heyrt talað um hið gagnstæða, þ.e. lélegan karakter. "Já við töpuðum þessu niður í seinni hálfleik og sýndum lítinn karakter"
Það væri skemmtileg tilbreyting.

"Kaninn vann þetta fyrir þá"

Þetta á eingöngu við um körfuboltamenn, oft er eins og íslenskir leikmenn og þjálfarar þjáist af minnimáttarkennd gagnvart erlendum leikmönnum. Þeim finnst á einhvern hátt skárra að tapa fyrir liði ef þeir geta bent á að það voru ekki Íslendingarnir í hinu liðinu sem voru í aðalhlutverkum. Í stað þess að líta fyrst á útlendingana sem leikmenn þá eru þeir fyrst útlendingar. Það er nefnilega allt í lagi að vera verri en erlendu leikmennirnir.
Hinsvegar á þetta að sjálfsögðu ekki við um erlenda leikmenn í þeirra eigin liðum, þeir eiga ekki meiri þátt í velgengninni en aðrir leikmenn og eru bara einn af liðinu. Við heyrum aldrei sagt "kanarnir okkar voru bara óstöðvandi í seinni hálfleik og kláruðu þetta fyrir okkur"

Þetta er svona það helsta sem íþróttamenn tala um þessa dagana, að ógleymdum tískuorðum hvers tíma.
Komum kannski að því seinna.

Ný síða

 


Þá er þessi síða komin í gang. Planið hefur verið að gera þetta í dágóðan tíma. Ekki af neinni sérstakri ástæðu nema kannski helst þeirri að ég hef gaman af því að skrifa. Ég vildi óska að ég gæti notað "það hafa margir komið að máli við mig" og beðið mig um halda úti svona síðu en það væri lygi, eins og svo oft þegar sá frasi er notaður.

Mig langaði að búa til "alvöru" síðu en það verður að bíða betri tíma, sjá fyrst til hvort ég nái að halda þessari gangandi sem ég vona nú að verði, ef einhver nennir að lesa. Hinsvegar ef að einhver þarna úti hefur áhuga á heimasíðugerð og langar til að hjálpa mér þá endilega hafið samband. En eins og áður sagði, klárum einn pistil áður en við hugsum lengra.

Þetta verður ekki daglegt blogg, ég held að allir séu hættir að skoða þannig síður. A.m.k. ég. Ég mun ekki skrifa um hvað ég fæ mér í morgunmat, hvað það sé kalt úti,hvað börnin mín séu með margar tennur og þess háttar. Nóg af þannig á Facebook býst ég við.

Eins og þið sjáið er mikið af körfubolta linkum tengdum Sundsvall Dragons, liðinu sem ég spila með. Fyrir utan að skrifa um hitt og þetta ætla ég að reyna að safna saman efni af netinu um liðið, grunar að einhverjir gætu haft gaman af því. Vonandi næ ég svo að redda mér vél (eða fæ Iphone-inn hans Kobba lánaðan) til að taka upp sjálfur, mig langar að læra aðeins á það, þá myndi ég taka upp einhvað tengt liðinu sem fólk gæti haft gaman að. S.s. mig langar að læra aðeins á netið, það er í raun kjánalegt hvað ég kann lítið á tölvur miðað við þann tíma sem ég eyði í þeim.

Allar ábendingar eru vel þegnar, ég er grænn í þessu öllu, ef það er einhvað sem ykkur finnst lélegt eða einhvað annað sem þið mynduð hafa þá er ég að hlusta.

Ég hef sett inn tvær færslur með myndböndum. Linkur á þær færslur eru svo á síðunni, ég mun uppfæra það um leið og ég rekst á einhvað efni. Endilega kíkið á einhvað af þessum myndböndum.

Ég væri þakklátur ef fólk myndi hjálpa mér að dreifa þessu svona fyrst um sinn á Facebook og öðrum samskiptasíðum. Set svo inn pistil í kvöld eða á morgun.