Tuesday, February 15, 2011

Níski Rússinn

 



Ég bölva oft verðinu á hlutum hérna í Svíþjóð. Þá aðallega eftir að ég er búinn að reikna u.þ.b. hvað þeir kosta í íslenskum krónum. Þó ég fái útborgað í sænskum krónum þá er nú planið að leggja fyrir og senda heim, því reikna ég alltaf í huganum hvað hlutir kosta í ISK.
Lengst af í vetur hefur 1 SEK verið um 17.5 ISK. Er núna í rúmum 18. Skilst að fyrir nokkrum árum í góðærinu sem við fengum að láni hafi hún verið um 9 ISK. S.s. þetta er alveg agalegt þegar ég versla en fínt þegar ég sendi heim. Reyndar er oft talað um óvenjulegt ástand í þessum málum. Það er ábyggilega rétt en nú eru komin nokkur ár þar sem þetta hefur verið svona. Ég lít því á þetta sem eðlilegt gengi þangað til þetta breytist eitthvað.

Hér eru örfá dæmi um hvað mismunandi hlutir kosta í Svíþjóð, reiknað í ISK.

Bensínlíter kostar 240 kr.
Bleyjupakki kostar 2150 kr.
Gosflaska 1/2 líter kostar 320 kr.
Kaffibolli á kaffihúsi kostar 550 kr.

Þið sjáið að þetta er fokdýrt. Íslenska krónan gerir það að verkum að ég verð mun nískari. Sem er einmitt ástæðan fyrir þessum pistli.
Þegar krónan var sem sterkust var þessu auðvitað öfugt farið. Allt sem við keyptum í útlöndum var nánast gefins. Ég a.m.k. leit svo á að ég væri að græða á öllum kaupum í USA, þótt ég þyrfti kannski ekki fimm íþróttabuxur og fjögur pör af skóm, þá var þetta bara svo andskoti ódýrt.

Meðan þetta ástand varði þá var líka allt á Íslandi rándýrt fyrir útlendinga sem reiknuðu í huganum yfir í sína mynt, eins og ég geri núna. Ég hef spilað með mönnum frá Rússlandi, Serbíu og Bandaríkjunum sem einfaldlega hættu við að borða með liðinu því það var svo dýrt. Einu sinni borgaði ég pylsu fyrir kana sem ég spilaði með, bara svo að hann borðaði eitthvað fyrir leik, hann var ekki á því að borga 5 dollara fyrir pylsu. Ég spilaði með Rússa sem setti pizzusneiðar í vasann á skítugri vinnuúlpunni eftir að hafa verið boðið í pizzuhlaðborð. Hann vissi sem var að næsta máltíð myndi kosta hann fleiri rúblur en hann kærði sig um að eyða. Ég hefði nú samt mælt með því að hann hefði fengið plastpoka utan um sneiðarnar, bragðast ábyggilega verr með öllu rykinu.

Þegar einn dollari var jafnvirði 60 ISK þá kostaði það Bandaríkjamann 40 dollara að fá sér pizzu á 2400 kr. Skiljanlegt að þeir hafi hugsað sig tvisvar um áður en þeir borguðu. Ætli þeir geti ekki fengið sér eins pizzu á 10 dollara í Bandaríkjunum.
Ekki þekki ég sögu gjaldmiðilsins í Rússlandi en væntanlega höfðu þeir svipaða ástæðu fyrir því að borga ekki. Þó ég sé ekki byrjaður að stinga mat í vasann þá skil ég þessa menn núna. Nú er ég níski Rússinn. Það er ekki gaman.