Monday, February 7, 2011

Steinsmaður

 


Síðasti pistill fékk ótrúlega athygli, kom skemmtilega á óvart. Ef hann hjálpar einhverjum þá er ég ánægður. Gallinn við þetta er að þessi blessaða síða er líklega búin að toppa, örfáum dögum eftir að hún fór í loftið. Samt gaman að þessu.

Ég hafði hugsað mér síðuna þannig að u.þ.b vikulega skrifi ég pistil um það sem mig langar til. Þess á milli set ég inn myndbönd, texta eða einhvað lítið og nett, eins og núna. Ég hef t.d. sett inn tvo tengla á leiki hjá okkur. Á móti L.F. Basket og Södertalje, þið finnið það undir "Sundsvall Highlights" ofar á síðunni. Ég ætla ekki að auglýsa það sérstaklega í framtíðinni, en þeir sem hafa áhuga vita hvar þeir eiga að leita. En að öðru.

Ég hef mjög gaman að flottum textum, kvæðum, ljóðum og þess háttar. Ber mikla virðingu fyrir mönnum sem kunna að setja saman góða texta, sama í hvaða formi það er. Það er hæfileiki sem ég væri til í að hafa. Hef ekki fundið það í mér ennþá, en kannski seinna. Torfi bróðir minn heitinn var mjög góður í að setja saman texta, hafði ekkert fyrir því. Ef ég hefði spurt hann hefði hann ábyggilega verið til í að skipta á þeim eiginleika og þeim að spila körfubolta vel. Ég hugsa að ég væri til í að skipta á þessum hæfileikum. Þó ekki væri nema fyrir það að annar eiginleikinn endist þér oft alla tíð en tankurinn klárast yfirleitt á fertugsaldri í íþróttunum.

Ég ætla að setja inn tvö ljóð eftir Stein Steinarr, sem einhverjir kannast við. Í kirkjugarði og Það vex eitt blóm fyrir vestan . Mæli ég með því að fólk gefi sér tíma til að fara yfir þau, ekki renna yfir þau eins og flest annað sem við lesum. Þetta er virkilega flott að mínu mati. Ég veit að þetta er ekki fyrir alla en vonandi hefur einhver gaman af þessu.

Í kirkjugarði.


Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu luku
í þagnar brag.
Ég minnist tveggja handa, er hár mitt struku
einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér sem okkur örlög vefið
svo undarleg.
Það misstu allir allt, sem þeim var gefið
og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir
dauðans ró,
hvort er ég heldur hann sem eftir lifir,
eða hinn sem dó.

Seinna ljóðið orti Steinn eftir að hafa komist að því að hann átti barn fyrir vestan, sem hann hafði aldrei hitt. Ég hef það eftir óstaðfestum heimildum, ef einhver veit betur, endilega látið mig vita.

Það vex eitt blóm fyrir vestan



Það vex eitt blóm fyrir vestan,
og vornóttin mild og góð
kemur á ljósum klæðum
og kveður því vögguljóð.

Ég ann þessu eina blómi,
sem aldrei ég fékk að sjá,
og þangað horfir minn hugur
í hljóðri og einmana þrá.

Og því geng ég fár og fölur
með framandi jörð við il.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
og veit ekki, að ég er til.