Tuesday, February 22, 2011

Stjörnuleikir

 



Það var stjörnuleikshelgi hérna í Svíþjóð um helgina, með svipuðu sniði og í NBA. Þriggja stiga keppni, svokallað skills challenge, troðslukeppni og svo stjörnuleikurinn sjálfur.
Það skemmtilegasta að mínu mati við stjörnuleikinn er að vera valinn, það er alltaf gaman og töluverður heiður. Ég er þakklátur fyrir það.

Ég get hinsvegar ekki sagt að ég hafi gaman af stjörnuleikjunum sjálfum. Kannski er ég bara bitur þar sem þessir leikir henta mér ákaflega illa, endalausar troðslur, þriggja stiga skot langt fyrir utan línu er ekki alveg fyrir mig. Svo er eiginlega bannað að spila vörn af krafti og berjast. Ég er því oft bara fyrir í svona leikjum. Ég reyni að hlýða þessum óskrifuðu reglum þó mig hafi stundum langað til að vera fíflið sem tekur þessu aðeins of alvarlega með því t.d. að brjóta hressilega á einum ungum kana þegar hann reynir við fimmtu troðsluna sína í leiknum.

Stjörnuleikurinn sjálfur finnst mér alltaf verstur á svona viðburðum, skotkeppnir, þrautir og troðslukeppnir eru betri þó ég sé ekkert sérlega hrifinn af því. En þar eru menn a.m.k. að keppa, sem er grundvallaratriði ef það á að vera gaman að horfa á íþróttir. Menn verða að vera að keppast um eitthvað. Geta leikmanna finnst mér engu skipta ef þeir vilja ekki vinna og taka á hinu liðinu, þess vegna heillar stjörnuleikurinn í NBA mig akkúrat ekki neitt. Þó þar séu bestu íþróttamenn heims þá verður þetta óáhugavert þegar menn eru bara að dúlla sér við að troða á milli þess sem þeir hlæja með andstæðingunum og spjalla um hvað það var nú gaman á spilavítinu í gærkvöldi.

Svona stjörnuleikir tíðkast ekki eins mikið í öðrum íþróttum, helst er að í fótbolta séu einhverskonar kveðjuleikir þar sem hrúgað er saman góðum leikmönnum. Það hljóta að vera hrikalega leiðinlegir leikir. Ekki mjög merkilegt að sóla sig í gegnum vörnina ef vörninni er alveg sama hvort þú skorir. Ég myndi ekki gráta það þó svona leikir yrðu ekki framar í körfunni en fólk virðist hafa gaman að þessu og ég virði það.

Ég held samt að ég hafi spilað minn síðasta stjörnuleik, áttaði mig á því í gær þegar ég var að reyna að fela þá staðreynd að ég var sígeispandi á bekknum að hugsa um hvað við fengjum að borða eftir leik, hvort ég fengi eitthvað kjöt eða fimmtándu pastamáltíðina í röð. Ég vissi ekki hvað staðan var í leiknum lengst af, eftir upphitun í hálfleik þá áttaði ég mig á því að við vorum í raun 15 stigum undir, ég hafði lítið fylgst með.
Þetta er því komið gott.

6 comments:

  1. Gæti ekki verið meira sammála þér.

    Bestu kveðjur frá Japan.

    ReplyDelete
  2. NKL Hlynur :) Það er ömulegt að horfa á stjörnuleiki!!! Eina sem gaman er af er 3-gja stiga keppnin... Sá að Kobbi var ekki í gallabuxum :)Agalegt að hann hafi ekki unnið keppnina :( Hvenær koma pistlar um þá fallegu íþrótt golf? Þú ættir nú að getað pistlað um hana enda með efnilegri golfurum á vesturlandi... Frægur fyrir stiffin þín :)
    Kveðja frá Ólafsvík

    ReplyDelete
  3. Langbestu pistlar sem ég hef lesið.

    ReplyDelete
  4. Ég held að þessir stjörnuleikir eru alveg upplagðir þar sem þeir eru bara skemmtun og eru sportinu til góða. Það er fullt af fólki sem fylgist lítið með körfunni en horfir til dæmis alltaf á All Star leikina.

    ReplyDelete
  5. Já Laugi (held a.m.k. að þetta sé Laugi) það hlýtur að koma hrakfallasaga úr golfinu.

    Já ég held reyndar að leikirnir geri ýmislegt gott þó ég hafi ekki gaman að þeim sjálfur. Allt er þetta gert í góðri meiningu, til að kynna sportið. Ég held reyndar líka að það væri hægt að útfæra þessa stjörnuleiki enn betur.

    Svo væri nú gaman ef fólk kvittaði undir, skemmtilegra að vita við hvern ég er að tala.

    Hlynur B

    ReplyDelete
  6. Já Hlynur ég skrifað comment að ofan :)Ég er viss um að þínir dyggu lesendur hefðu gaman að heyra sögu af golfmótinu sem þú hélst seinasta sumar:)
    Kveðja Laugi

    ReplyDelete