Klassísk íþróttasvör
Svipað og með stjórnmálamenn þá tala íþróttamenn yfirleitt í frösum og stöðluðum setningum sem gefa lítið upp. Stundum er um hreina lygi að ræða. Reyndar verður að hafa það í huga að menn eru oft teknir í viðtöl örfáum sekúndum eftir að leik lýkur með adrenalínið í botni og allt á fullu í hausnum. Þá kemur yfirleitt ekki mikið af viti út úr þeim. Algengt er að þjálfarar dásami vörnina í viðtölum eftir leik því það er bara forritað í þá að vörnin skili sigrum, jafnvel þó að þeir hafi fengið á sig 95 stig og greinilega unnið leikinn á flottum sóknarleik. Ég þekki það að stundum er ég beðinn um að útskýra eitthvað úr leikjum og geri mér grein fyrir því að ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að svara spurningunni almennilega á þeim stutta tíma sem er í boði. Þá er oft gripið til setninga eins og "við fórum bara að spila vörn" eða "menn sýndu bara úr hverju þeir eru gerðir".
Ég ætla að fara yfir nokkra frasa og vinsælar setningar hjá íþróttamönnum.
"Sýnd veiði en ekki gefin"
Oft notað þegar góð lið eru að fara að mæta slökum andstæðingum. Gefur slakara liðinu örlitla virðingu og tekur í leiðinni smá pressu af betra liðinu. Reyna að benda á að andstæðingurinn sé ekki jafn lélegur og allir halda. Sem hann er reyndar oftast.
Þessi setning gæti líka verið sögð svona.
"Við erum að sjálfsögðu með miklu betra lið og ættum að vinna þetta nokkuð létt en viljum samt ekki vera of góðir með okkur því sólin hefur skinið á hundsrass áður"
Ég væri til í að sjá tölfræði yfir úrslit leikja þar sem þessi lína var notuð í viðtali fyrir leik. Grunar að tölfræðin sé um 98% taphlutfall hjá liðinu sem var "sýnd veiði en ekki gefin"
"Hugsum bara um næsta leik"
Klassískt svar. En samt er þetta oft bara lygi. Flestir íþróttamenn hugsa um eitthvað stærra en næsta leik, sér í lagi ef næsti leikur er alls ekkert spennandi. Ég hef t.d. öll mín ár spáð í möguleikum í úrslitakeppni löngu fyrir úrslitakeppnina sjálfa. Hugur flestra er á því stóra sem í boði er.
Bikarsvarið
Það er dregið í bikarnum á morgun og alltaf er spurt hver sé óskaandstæðingurinn. Undantekningalaust er það ekki gefið upp heldur er svarað svona "við eigum okkur enga óskamótherja". Stundum er reyndar sagt að óskin sé að fá heimaleik sem er reyndar eina svarið sem kemur við þessari spurningu en ætti ekki að þurfa, það er svo augljós ósk. Það hljóta allir að sjá að menn vonast eftir að fá slökustu andstæðingana, eða a.m.k. ekki það lið sem er erfiðast. Það væri góð tilbreyting að heyra einu sinni svar á þessum nótum, "ég væri til í að mæta Val á heimavelli, það ætti að vera nokkuð öruggt" eða "það væri gott að sleppa við að fá KR á útivelli, það væri agalegt svona í 16 liða úrslitunum, betra að geyma þá þar til seinna"
Í raun ótrúlegt að íþróttafréttamenn spyrji enn að þessu, það er fullreynt að fá svar við spurningunni.
Andstæðingurinn gerir aldrei neitt til að vinna leiki.
Íþróttamönnum er ákaflega illa við (kannski skiljanlega) að viðurkenna að andstæðingurinn hafi gert einhvað til að vinna þá. Vilja alltaf láta líta út eins og allar mögulegar útkomur leikjanna séu í þeirra eigin höndum, eins og hitt liðið æfi ekki, undirbúi sig ekki, hafi hæfileika eða sjálfstæðan vilja. Dæmi er að góður körfuboltamaður snögghitnar og setur upp sóknarsýningu í seinni hálfleik og drepur eitthvað lið, góð skytta í handbolta setur 8 mörk á stuttum tíma. Ef andstæðingurinn er spurður eftir leik hvað hafi gerst þá er ekki svarað og bent á hið augljósa "heyrðu, við bara réðum ekkert við þennan gaur/lið, þeir spiluðu virkilega vel og við réðum lítið við það." Svörin eru hinsvegar oft í þessum dúr, "við bara hættum að spila vörn" eða "mínir menn misstu bara einbeitningu".
Karakter
Þetta er einhvað ofnotaðasta orð íþróttamannsins og fer raunar í taugarnar á mér þegar menn mega ekki setja nokkur stig/mörk án þess að tala um frábæran karakter.
Eftirfarandi hlutir kalla á að orðið "karakter" sé notað í viðtali.
Lið vinnur upp forskot eftir að hafa byrjað illa.
Lið vinnur án lykilmanns.
Lið vinnur á útivelli.
Lið vinnur mikilvægan sigur.
Klikkar aldrei. Eftir viðburðaríka íþróttahelgi má búast við að um að þó nokkur fjöldi íþróttamanna um allt land hafi sýnt góðan karakter. Samt hef ég aldrei heyrt talað um hið gagnstæða, þ.e. lélegan karakter. "Já við töpuðum þessu niður í seinni hálfleik og sýndum lítinn karakter"
Það væri skemmtileg tilbreyting.
"Kaninn vann þetta fyrir þá"
Þetta á eingöngu við um körfuboltamenn, oft er eins og íslenskir leikmenn og þjálfarar þjáist af minnimáttarkennd gagnvart erlendum leikmönnum. Þeim finnst á einhvern hátt skárra að tapa fyrir liði ef þeir geta bent á að það voru ekki Íslendingarnir í hinu liðinu sem voru í aðalhlutverkum. Í stað þess að líta fyrst á útlendingana sem leikmenn þá eru þeir fyrst útlendingar. Það er nefnilega allt í lagi að vera verri en erlendu leikmennirnir.
Hinsvegar á þetta að sjálfsögðu ekki við um erlenda leikmenn í þeirra eigin liðum, þeir eiga ekki meiri þátt í velgengninni en aðrir leikmenn og eru bara einn af liðinu. Við heyrum aldrei sagt "kanarnir okkar voru bara óstöðvandi í seinni hálfleik og kláruðu þetta fyrir okkur"
Þetta er svona það helsta sem íþróttamenn tala um þessa dagana, að ógleymdum tískuorðum hvers tíma.
Komum kannski að því seinna.