Ég er ágætur i korfubolta, held ég geti alveg sagt það. Jafnvel nokkuð góður, en það fer eftir því við hvað er miðað. Mér hefur gengið mjög vel á Íslandi, gekk fínt i Hollandi persónulega og svo held ég að allir séu sáttir við mig hérna i Svíþjóð.
Þetta hljómar reyndar betur en það kannski er því þessi þrjú lönd eru ekki beint sterkustu körfuboltaþjóðir heims. Þó deildirnar séu ágætar og gott að standa sig þar eru mjög margar deildir sterkari, NBA, NBDL, spænska ACB deildin, 1. Deild á Spáni, ítalska, gríska, franska, tyrkneska, kínverska, slóvenska, serbneska, ástralska,rússneska, brasilíska og ég gæti talið lengur.
Gæti ég spilað þar? Ábyggilega gæti ég plummað mig í einhverjum af þessum deildum, þá kannski í minna hlutverki.
Eitt veit ég þó og það er að ef ég hefði alltaf gert jafn mikið og ég mögulega gat til að bæta mig, þá væri ég að spila í einhverjum af þessum deildum í dag, væri með betri samning og kannski búinn að sjá enn fleiri hluti en ég hef séð núna.
Ég reyndar kem frá landi þar sem ekki er mikil hefð fyrir aga,skipulagningu, þjálfun er heilt yfir á lágu plani og leikskilningur sáralítill. Það er samt engin afsökun, ég fékk frábær tækifæri til að læra af mönnum sem vissu og vita enn meira en ég um leikinn. Hvernig á að spila hann og hvað þarf til. Því miður hlustaði ég ekki alltaf og forgangsraðaði ekki rétt.
Það voru mörg sumur sem ég gerði nánast ekkert til að verða betri, sumrinu 2002 eyddi ég að horfa á HM í fótbolta, drekkandi fleiri lítra af coke og kaffi en ég kæri mig um að muna eftir, fór þess á milli á böll í Hreðavatnsskála. Ég horfði nánast á hvern einasta leik, en í dag man ég ekki einu sinni hver vann mótið. Árin eftir að ég flutti í Stykkishólm eyddi ég endalausum tíma í að horfa á enska boltann, á sunnudagsmorgnum, mánudagskvöldum og nánast alla leiki sem ég gat. West Ham-Derby í beinni hljómar ekki spennandi en ég missti ekki af því. Ég hef ótal svipuð dæmi, en óþarfi er að telja þau upp, þið skiljið hvað ég á við.
Ég er ekki að segja að það sé slæmt að horfa á fótbolta, spila tölvuleiki, fara á böll eða gera það sem manni langar þá stundina en það að komast þangað sem maður vill krefst meiri fórna en flestir eru tilbúnir í. Á þessum yngri árum hugsa strákar yfirleitt ekki til þeirrar staðreyndar að þeir verða ekki eilífir í þessu, þeir hugsa ekki um alla möguleikana sem meiri vinna gæti skilað þeim. Aldurinn nær okkur öllum á endanum, því eins og maðurinn sagði, "you can't bring back youth".
Ég hugsa oft "hvað ef?" og fæ samviskubit við tilhugsunina.
Í Borgarnes á sínum tíma komu tveir þjálfarar sem hjálpuðu mér mikið en samt tók ég bara inn brot af því sem þeir höfdu fram að færa. Dragisa Saric og Alexander Ermolinski. Við í liðinu nöldruðum yfir hinu og þessu sem þeir gerðu (t.d lyftingar og skotæfingar sem kröfðust þess að menn blésu úr nös, og tækju fleiri en 10 skot). Sorgleg staðreynd, þeir vissu svo mikið, mikið meira um leikinn en við, höfðu spilað á mjög háu leveli Evrópu á meðan við höfðum flestir eytt okkar ferli í að hita upp i ellefu manna hraðaupphlaupi og svo spilað frjálst. Enginn okkar var undir áhrifum frá mönnum sem höfðu náð langt i íþróttinni. Þetta er grátbroslegt, menn úr Skallagrím efuðust um það sem þessir menn höfðu fram að færa.
Hversu mikið betri væri ég ef ég hefði hlustað á Ermolinski, gert það sem hann bað mig um, sem var einfaldlega ad æfa meira og hlusta á hann tala um leikinn af dýpt, tileinka mér hluti eins og varnarstöður,hvar er best að vera i sókninni a hinum og þessum stundum, vinna úr pick og roll (mjög algengt leikkerfi í körfubolta), hreyfa sig án bolta? Öðlast leikskilning. Læra.
Mikið væri ég til í að endurtaka þennan tíma og gera hlutina öðruvísi.
Hversu mikið betri skytta væri ég ef ég hefði eytt tíma á sumrin og á morgnana til að skjóta 6-700 skotum á dag? Auðvitað væri ég frábær skytta í dag, það eitt og sér myndi gera mig að mun betri leikmanni en ég er.
Hversu mikið sterkari ,sneggri og með meiri stökkkraft væri ég ef ég hefði lyft rétt og af krafti frá 16 ára aldri? Já þetta er leiðinleg tilhugsun.
Þessi pistill hljómar eins og ég hafi aldrei gert neitt, en ég æfði sæmilega og ábyggilega meira en flestir íslenskir körfuboltamenn, en möguleikarnir til að gera betur og stíga næstu skref voru allt í kringum mig.
Síðustu tvö ár hef ég sinnt þessu mun betur og held ég hafi tekið miklum framförum. Samt er enn pláss til að bæta það hvernig maður lifir og æfir. Þetta er allt spurning um að temja sér aga og venjur. Þjálfarinn minn hérna í Svíþjóð elskar t.d. þessa linu frá Aristóteles, "We are creatures of habit, we are what we repeatedly do, excellence therefore is not an act, but a habit."
Mikið til í þessu.
Í dag hugsa ég meira um hvað eru mínir ávanar og trúið mér. Þeir eru nokkrir slæmir. Ég reyni stöðugt að laga það, með misjöfnum árangri.
Þær spurningar sem ég hef spurt og það sem ég hef talað um eru allt hlutir sem ég verð að lifa við, get ekki breytt því sem liðið er. Ég get gefið ungum íþróttamönnum sem hafa einlægan áhuga á því að ná langt það ráð að forðast það að þurfa seinna meir að velta fyrir sér "hvað ef?" spurningunum. Gera þetta eins vel og hægt er, hafa íþróttina algjörlega i fyrsta sæti því það dugir ekkert minna. Það verður enginn sérstaklega góður af því að æfa 3-4 sinnum í viku, klukkutíma í senn.
Í dag myndi ég a.m.k þiggja samning frá liði i spænsku úrvalssdeildinni eða NBA, en ég efast um að hann sé á leiðinni.
En hvað ef?