Saturday, February 12, 2011

Leikskilningur

 


Margir muna eftir viðtali við Ólaf Stefánsson snemma árs 2008, þar viðraði hann þá hugmynd að fá mig í handboltalandsliðið, þó minni alvara hafi verið í þeirri hugmynd en margir halda. Viðtalið vakti mikla athygli, kannski skiljanlega en það versta við allt fjaðrafokið var að fæstir mundu eftir aðalatriði viðtalsins. Ólafur talaði um að Íslendingum væri ekki kenndur leikskilningur í boltaíþróttum, hann er óhræddur við að segja hvað honum finnst. Hann þekkir vel til, er sjálfur einn af betri handboltamönnum heims og bróðir hans Jón Arnór er besti körfuboltamaður landsins sem hefur staðið sig frábærlega í Evrópu. Þeir bræður hafa séð meira en flestir íþróttamenn og talaði ég um þetta við Jón Arnór fyrir nokkrum árum.

Mig langar ekki að móðga neinn, en mig grunar að ástæðan fyrir minni leikskilning hjá okkur Íslendingum (a.m.k. í körfubolta) er að hann er ekki fyrir hendi hjá þeim sem eiga að vera að kenna hann. Þau atriði sem krefjast leikskilnings, eins og hvernig þú átt að bregðast við ýmsum aðstæðum í vörn og sókn, sjá völlinn og geta brugðist við ýmsum stöðum sem upp koma eru flóknari og tímafrekari að kenna en t.d. boltatækni.

Það þarf að brjóta þau niður, vinna í þeim, og tala um þau. Gera mikinn leikskilning og gott skipulag að okkar einkennum, í staðinn fyrir að telja okkur trú um að við séum almennt betri skyttur eða berjumst meira en aðrar þjóðir. Það er því miður ekki rétt.

Ég hef eytt miklum tíma í alls kyns boltaþrautir, sem að sjálfsögðu eru mikilvægar líka. Reyndar líka í "áttuna" sem er ekki mikilvæg á neinn hátt. Of litlum tíma hef ég hins vegar eytt með íslenskum þjálfurum í það sem gæti flokkast sem leikskilningur þar sem farið er dýpra í hlutina. Hvernig á að vinna úr pick and roll og almennt "spacing", hvernig er best að bregðast við hinum ýmsu aðstæðum. Þetta eru atriði sem geta skilið á milli leikmanna og eru ekki beint sterkasta hlið íslenskra leikmanna. Þessa hluti á að kenna krökkum snemma.

Dæmi af Íslandi væri Pavel Ermolinski, það sem skilur hann einna helst frá öðrum bakvörðum þar er leikskilningur, hann sér völlinn betur og veit hvar menn eiga að vera allt í kringum hann. Væntanlega hefur það eitthvað að gera með að hann hefur verið lengi á Spáni og er sonur manns sem komst langt í Evrópu. (OK, þessi síða byrjar á endalausu lofi á Ermolinski ættbálkinn, þetta verður það síðasta, í bili a.m.k.)

Ég tel að fyrir ungling sem er efnilegur þá græði hann meira á því að fá leiðsögn í því hvernig á að spila leikinn rétt og skilja hann heldur en að honum sé fylgd í gegnum allar endurtekningar á tækniatriðum. Ég endurtek að þessi drill og boltaæfingar eru ekki rangar, en ég held við þurfum mun betra jafnvægi í hvernig við nálgumst leikinn. Tæknina geta metnaðarfullir krakkar fínpússað sjálf eða á aukaæfingum.

Ég er ekki mesti reynslubolti evrópska boltans en eftir að hafa talað við þá menn sem hafa verið að spila úti undanfarin ár er greinilegt að það er mikill munur á hvernig við og þessar þjóðir leggjum upp leikinn. Of mikið er um gagnlitlar skotæfingar, s.s skot sem við fáum aldrei í leik. Þegar svo er spilað er alltof lítið um að leikurinn sé brotinn niður og unnið í einhverju markvissu eins og t.d. hvernig á að tvídekka öflugan stóran mann eða mæta ákveðinni pick and roll vörn.

Ég vill því fá fleiri erlenda þjálfara til Íslands, til að kenna bæði leikmönnum og þjálfurum. Kynnast nýrri aðferðarfræði og annari hugsun. Í flestum tilfellum vita þeir meira um evrópskan körfubolta en við. Viðurkennum að við stöndum ekki framarlega. Sækjum okkur því þekkingu og tileinkum okkur hana.